Þegar SKEL birti ársuppgjör sitt fyrr í þessum mánuði þá kom fram að félagið hafi hagnast um 6.754 milljónir á árinu 2024, sem jafngildir arðsemi eiginfjár upp á 18,3 prósent. Afkoma skráðra fjárfestinga var 2,1 milljarðar, þar munar mestu um eignarhlut í Skaga og Kaldalón, á meðan félagið hagnaðist um 5,4 milljarða af óskráðum eignum, en stærsta eignin þar er ríflega 63 prósenta hlutur í Styrkás.
Heildareignir SKEL voru um 60,5 milljarðar um áramótin á meðan eigið fé fjárfestingafélagsins stóð í nærri 44 milljörðum.
Í nýrri greiningu Jakobsson Capital á SKEL, sem Innherji hefur undir höndum og byggir á rýni á rekstraráætlunum og eignasafni fjárfestingafélagsins, er komist að þeirri niðurstöðu að verðmatsgengið sé ríflega 23,5 krónur á hlut. Það er um 22 prósentum hærra en hlutabréfaverð SKEL í Kauphöllinni, en það stóð í 19,3 krónum á hlut við lokun markaða í gær – og hefur farið aðeins lækkandi síðustu daga og vikur.

Í umfjöllun um Styrkás er rifjað upp að fyrirtækið hafi skilað metafkomu á liðnu ári samtímis vexti í eldsneytissölu.
„Töluverð fjárfesting er framundan hjá Styrkás, sérstaklega í tengslum við nýkeypt félag Hringrás sem hefur yfir að ráða 50 þúsund fermetrum í lóðum og fasteignum. Það er lóð með byggingarrétti við Sundahöfn eða Sægarð þar sem áætlað er að byggja verkstæði og skrifstofuhúsnæði fyrir Stólpa-gáma. Auk þess er stór lóð í Hafnarfirði. Stjórnendur Skel sjá mikil tækifæri í endurvinnslu og huga að fjárfestingu þar,“ segir í greiningunni.
ACRO sér um sölu á hlut í Styrkás
Undir Styrkás heyrir meðal annars starfsemi Skeljungs, Kletts, Stólpi Gámar og Hringrás – en tvö síðastnefndu félögin voru keypt á liðnu ári. Eignarhlutur SKEL í innviðafyrirtækinu, sem er áformað að skrá á markað eigi síðar en 2027, er verðmetinn á um 13 milljarða og byggir sú verðlagning á síðustu viðskiptum.

Í lok síðasta árs voru fyrirhuguð kaup Styrkás á Krafti felld niður en Samkeppniseftirlitið hafði komist að þeirri niðurstöðu að SKEL og Styrkás væri eitt og sama félagið vegna þess að eignarhlutur fjárfestingafélagsins væri yfir 50 prósent. Áformuð sala á 10 til 15 prósenta hlut í Styrkás til hornsteinsfjárfesta, sem SKEL greindi frá við birtingu uppgjörs, tengist meðal annars þessari túlkun. Þá er það talið hamlandi fyrir vöxt Styrkás að það sé dótturfélag SKEL í bankakerfinu sem hefur áhrif á áhættuflokkun, auk þess sem ekki sé talið æskilegt að SKEL eigi meira en fjórðungshlut í fyrirtækinu þegar það fer á markað.
Það er verðbréfafyrirtækið ACRO sem hefur umsjón með sölu á allt að 15 prósenta hlut í Styrkás, sem gæti verið um þriggja milljarða króna virði, en samkvæmt heimildum Innherja er stutt í að þau viðskipti verði kláruð.
Virði hlutar í INNO gæti margfaldast með afkomubata
Á meðal fjárfestinga í eignasafni SKEL sem greinandi Jakobsson Capital telur að geti hækkað mikið – og þá um leið virði fjárfestingafélagsins – er helmingshlutur í verslunarkeðjunni INNO sem selur fyrst og fremst fatnað og snyrtivörur. Félagið, sem SKEL keypti um mitt árið í fyrra í samfloti með Axcent of Scandinavia, rekur 16 verslanir í Belgíu sem telja 130 þúsund fermetra og netverslun.

„Verslunarkeðjan er mjög stór þótt virði sé ekki ýkja hátt í bókum SKEL“, útskýrir greinandi Jakobsson, en helmingshluturinn í INNO er í félaginu Stork – það heldur utan um erlendar fjárfestingar SKEL – og er núna bókfærður á ríflega 1,1 milljarð króna. Á síðasta fjárhagsári INNO var velta fyrirtækisins um 42,4 milljarðar króna og félagið skilaði EBITDA-hagnaði upp nærri 1,4 milljarða króna.
Fram kemur í greiningu Jakobsson að verðið á INNO í bókum SKEL sé því vel innan við tvöfaldur rekstrarhagnaður – ekki liggur fyrir hver skuldsetning verslunarkeðjunnar er – og það þurfi „ákaflega lítinn bata“ í rekstrinum til að verðmiðinn á fyrirtækinu hækki mikið. „Ljóst er sömuleiðis á móti að ef þróunin er í hina áttina, þá á félagið í rekstrarvanda. Velta félagsins slagar hátt í alla fatasölu á Íslandi eða er gróflega 80 til 90 prósent allrar fatasölu á Íslandi.“
Þá bendir hann á að verðmatið á INNO grundvallist á greiningu frá þriðja aðila, sem Jakobsson hafi ekki aðgang að, en þrátt fyrir það er ljóst að verðlagningin sé afar lág í samanburði við nokkur önnur erlend félög í sambærilegum rekstri. Þau fyrirtæki séu almennt verðmetinn á um fimm sinnum hærra verði en INNO.
„Ef viðsnúningur verður í rekstri INNO að þá getur virði hlutar auðveldlega margfaldast ef ekki tugfaldast ef horft er til þess að árleg velta er 42,4 milljarðar. Virði INNO er metið rúmlega 5 prósent af ársveltu,“ segir greinandi Jakobsson. Hann bætir við að smásala í Evrópu hafi átt erfitt uppdráttar eftir faraldurinn samhliða litlum hagvexti og auknum vinsældum netverslunar.
Þá kemst Jakobsson að þeirri niðurstöðu að virði Orkunnar og Löðurs, næsta stærsta óskráða eignin í safni SKEL, um 11,2 milljarðar sem er örlítið hærra en bókfært virði félaganna upp á 10,7 milljarðar. Verðmatið hefur hækkað um liðlega 20 prósent í bókum SKEL frá því í fyrra samhliða um sambærilegri hækkun á EBITDA-hagnaði félaganna sem var nærri 2,3 milljarðar á árinu 2024.
„Mikil vinna hefur farið í að straumlínulaga rekstur Orkunnar. Rekstri bensínstöðva hefur verið nærri hætt. Launakostnaður er mjög lágur og byggir reksturinn nær eingöngu á sjálfsafgreiðslustöðvum. Rétt er þó að benda á að stjórnendur SKEL stefna á að bjóða upp á meiri þjónustu á Orkunni en nú er. Á móti var töluvert rask í rekstri Löðurs. Það var verið að loka stöðvum og opna nýjar stöðvar svo afkoma Löðurs var eftir því,“ segir í greiningu Jakobsson.
Virði apótekakeðjunnar Lyfjavals var tekið niður um liðlega 400 milljónir í reikningum SKEL á síðasta ári – úr 2,8 í 2,4 milljarða – en reksturinn hefur ekki verið í samræmi við væntingar síðustu fjórðunga. EBITDA-hagnaðurinn minnkaði um 24 milljónir milli ára og var 139 milljónir í fyrra – en væntingar höfðu verið um að hann myndi verða yfir 300 milljónir.
„Þær áætlanir hafa ekki gengið eftir og hafa ný apótek farið hægar af stað en vonir voru um. Umtalsvert var fjárfest í apótekum og má segja að árið 2024 hafi verið ár uppbyggingar og umbrota. Töluverður munur er á fjölda heimsókna í apótek og dagvöruverslanir. Þú ferð á nokkra vikna eða mánaða fresti í apótek. Á meðan þú ferð nokkrum sinnum í viku í dagvöruverslun. Það tekur því lengri tíma fyrir apótek að festa sig í sessi.“
Þá segir í umfjöllun Jakobsson að rekstur lyfjaverslana sé fremur stöðugur en Lyfjaval starfrækir núna átta apótek. „Upphaflega var stefnt að opnun 11 apóteka en fallið hefur verið frá því. Samkvæmt forstjóra er 1 af þessum 8 apótekum í lökum rekstri og ef ekki verður viðsnúningur þar mun því verða lokað. Í forsendum SKEL er gert ráð fyrir kröftugum viðsnúningi þar.“
Samkvæmt verðmati Jakobsson er Lyfjaval metið á um 2,3 milljarða – SKEL fer með 81 prósent hlut í félaginu – en tekið fram að ef ekki verður bati á rekstrinum á þessu ári verði sá verðmiði tekinn niður.
Fyrr á árinu undirrituðu stjórnir Samkaupa og Heimkaupa samning um helstu skilmála vegna samruna félaganna. Samkaup er yfirtökufélagið og sameinast þar með öllum einingum Heimkaupa á dagvörumarkaði og greiðir fyrir þau með útgefnu hlutafé í Samkaupum. Hluthafar Heimkaupa eignast þar með rúmlega 10 prósent hlutafjár í sameinuðu félagi.
Fyrir viðskiptin er Skel eigandi að 6 prósent eignarhlut í Samkaupum í gegnum eignarhaldsfélagið Bjarma. Eignarhlutur SKEL í sameinuðu félagi verður rétt undir 14 prósent. Tekjur Heimkaupa í fyrra námu um 7,7 milljörðum en um 42 milljarðar í tilfelli Samkaupa – bæði félögin töpuðu hins vegar talsvert á rekstrinum – og er virði hlutar SKEL í sameinuðu félagi eftir viðskiptin talinn vera tæplega 1.600 milljónir.
Stjórnendur félaganna hafa gefið út að stefnt sé að skráningu sameinaðs félags á markað.
Greinandi Jakobsson segir ljóst að mesta samlegðin verði í innkaupum. „Örlítið betri verð, eða um 1,5 prósent hagstæðara verð í Innkaupum, sparar um 600 milljónir króna. Einnig er einhver sparnaður í yfirstjórn líklegur. Það má því geta sér þess til að líkleg samlegð sé nærri milljarði, eða 800 til 900 milljónir.“
Langsamlega stærsti hluthafi SKEL er fjárfestingafélagið Strengur með rétt ríflega 51 prósenta hlut. Ráðandi hluthafar þess félags eru hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir ásamt hjónunum Sigurði Bollasyni og Nönnu Björg Ágústsdóttir. Aðrir helstu hluthafar eru lífeyrissjóðirnir Frjálsi og Birta en erlendi vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi í liðnum mánuði allan fimm prósenta eignarhlut sinn í félaginu.
Markaðsvirði SKEL er núna ríflega 36 milljarðar og hefur staðið í stað frá áramótum.