Útgáfan hjá EpiEndo er uppbyggð með þeim hætti að fimm milljónir evra eru í formi nýs fjármagns en fjórar milljónir evra er framlenging á eldri breytanlegum skuldabréfum, sem voru gefin út fyrir tveimur árum. Fjármögnunin, sem Fossar fjárfestingabanki hafði umsjón með, nemur því jafnvirði ríflega 1,3 milljarða íslenskra króna. Þátttakendur í útgáfunni nú eru bæði einkafjárfestar sem og stofnanafjárfestarnir Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.
Birta og LSR eru fyrir meðal fjárfesta í EpiEndo sem hluthafar í framtakssjóðnum Iðunni sem kom fyrst að félaginu árið 2021.
Fjármögnunin gerir EpiEndo, lyfjafyrirtæki í klínískum þróunarfasa, núna mögulegt að þróa áfram frumlyf sitt glasmacinal – áður þekkt sem EP395 – sem er fyrsta lyfið í nýjum lyfjaflokki bólgueyðandi lyfja. Glasmacinal lofar góðu sem meðferð við langvinnum öndunarfærasjúkdómum, svo sem langvinnri lungnaþembu (COPD), þriðja algengasta dánarorsökin í heimi.
Í tilkynningu frá EpiEndo segir að niðurstöður úr fasa 2a rannsókn á glasmacinal, sem bárust á fyrsta fjórðungi 2024, hafi verið mjög góðar og sýndu að sjúklingar þola lyfið vel. Jákvæðar vísbendingar voru um að lyfið minnki bólgur og staðfest var að það hafði hvorki áhrif á náttúrulega bakteríuflóru í lungum né í meltingarvegi. Það styðji við kenningar félagsins um að glasmacinal hafi óverulega sýklalyfjavirkni þrátt fyrir að vera efnafræðilega skylt sýklalyfjum.
Þessi fjármögnun gerir okkur kleift að halda áfram þróun glasmacinal og ljúka lykilundirbúningsvinnu á sviði CMC, sem er nauðsynleg fyrir fasa 2b rannsókn.
Félagið segist núna stefna að áframhaldandi þróun á glasmacinal og eigi í samtali við stóra erlenda fagfjárfesta og lyfjafyrirtæki um fjármögnun á stórri fasa 2b klínískri rannsókn. Áður en sá fasi getur hafist þurfi hins vegar að ljúka mikilvægri vinnu á sviði efnaþróunar, framleiðslu og gæðaeftirlits (CMC) og verður hluti skuldabréfaútgáfunnar nýttur til að fjármagna þann undirbúning.
María Bech, forstjóri EpiEndo, segir í tilkynningu: „Sú þekking sem við höfum nú á bólgueyðandi eiginleikum glasmacinal og getu lyfsins til að styrkja varnarkerfi líkamans, gefur okkur ástæðu til að telja að glasmacinal geti verið raunhæfur kostur sem langtímameðferð fyrir sjúklinga sem fá tíðar COPD versnanir þrátt fyrir að vera á þeim lyfjum sem nú eru í boði.“
Þá er haft eftir Stefáni Péturssyni, fjármálastjóra fyrirtækisins, að það sé mikil ánægja að fá nýja og öfluga fjárfesta til liðs við EpiEndo. „Við metum mikils þann stuðning sem þeir sýna félaginu og það traust sem þeir hafa á getu okkar til að þróa glasmacinal enn frekar.“
EpiEndo fékk á sínum tíma alþjóðlega fjárfestingabankann Barclays til liðs við sig til að byrja að kanna áhuga lyfjafyrirtækja og sérhæfðra fjárfestingarsjóða í Evrópu og Bandaríkjunum til að koma að fjármögnun félagsins.
Auk stofnandans Friðriks Rúnars Garðssonar, sem fór með tæplega fimmtungshlut í félaginu í árslok 2024, eru stærstu hluthafar EpiEndo íslenska eignarhaldsfélagið ABC Venture, stýrt af Ívari Guðjónssyni fjárfesti og stjórnarmanni í EpiEndo, sænska fjárfestingafélagið Flerie Invest, sem er í eigu Thomas Eldered, stofnanda lyfjarisans Recipharm, fjárfestingasjóðurinn EIC Fund, sem er í eigu Evrópusambandsins, og framtakssjóðurinn Iðunn sem er í rekstri Kviku eignastýringar og leggur áherslu á fjárfestingar í lífvísindum og heilsutækni.
Aðrir hluthafar eru einkum íslenskir einkafjárfestar og einstaklingar en í árslok 2024 var fjöldi hluthafa í EpiEndo ríflega 100 talsins.
