Atvinnulíf

Fyrsti kaffi­bollinn minnir hann á að þrjú börn eru á heimilinu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kjartan Sverrisson, framkvæmdastjóri Overcast, viðurkennir að hausinn sé oft lengi af stað á morgnana. Eftir fyrsta kaffibollan man hann þó eftir því að á heimilinu eru þrjú börn til að ýta við en er sem betur fer svo vel giftur að þá er eiginkonan hans löngu búin að því. Með á mynd er hundurinn Tobbi.
Kjartan Sverrisson, framkvæmdastjóri Overcast, viðurkennir að hausinn sé oft lengi af stað á morgnana. Eftir fyrsta kaffibollan man hann þó eftir því að á heimilinu eru þrjú börn til að ýta við en er sem betur fer svo vel giftur að þá er eiginkonan hans löngu búin að því. Með á mynd er hundurinn Tobbi. Vísir/RAX

Kjartan Sverrisson, framkvæmdastjóri Overcast, vaknar oft á undan vekjaraklukkunni og finnst þá gott að byrja daginn á því að grípa í bók. Enda sjúkur í að lesa og á oft erfitt með að stoppa sig í lestrinum á kvöldin. 

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk á ólíkum aldri. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Eftir að börnin fóru að sjá meira og minna um sig sjálf og við foreldrarnir ekki þurft að stökkva framúr um leið og haninn galar til að koma öllum út á réttum tíma, þá hafa morgnarnir þróast út í að vera rólegri en þeir voru áður.

Flestir myndu flokka mig sem A-manneskju og ég á frekar auðvelt með að vakna á morgnana. Yfirleitt vakna ég við vekjaraklukku um klukkan sjö en oft er ég vaknaður eitthvað fyrr og þá finnst mér gott að grípa í bók og lesa til hálf átta, eða bara njóta þess að hefja daginn rólega, á koddanum.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

,,Þegar ég varð 45 ára gaf konan mín mér æðislega kaffivél í afmælisgjöf, sem er frábært því ég er sá eini sem drekk kaffi á heimilinu. Að hella upp á kaffi er það allra fyrsta sem ég geri á morgnana, því þó ég eigi auðvelt með að vakna og fara á fætur, þá getur hausinn verið lengi í gang.

Með kaffibollann í hendi rifjast yfirleitt upp fyrir mér að ég á þrjú börn sem þurfa líka að hefja sinn dag og það gæti þurft að ýta á eftir þeim. 

Þá kemur líka yfirleitt í ljós að ég er einstaklega vel giftur og konan mín löngu búin að ýta við þeim öllum.“

Hvaða heimilisverkum ertu stoltastur af að sinna?

„Að elda góðan mat fyrir fjölskyldu og vini. Veislumatur þarf hvorki að vera dýr né flókinn, svo lengi sem maður sé til í að gera tilraunir.

Rótina af eldamennskuáhuganum má rekja til þess að ég flutti að heiman úr Mosfellsbænum þegar ég var 16 ára og fór í Menntaskólann á Akureyri. Þar leigði ég herbergi hjá konu, sem gekk mér eiginlega í ömmu-stað og fjölskylda hennar var fjölskyldan mín yfir þessi fjögur ár. Þessi flutningur varð til þess að ég varð að læra að elda mat ef ég ætlaði borða.

Ég viðurkenni það fúslega að pasta og núðlur voru oft í matinn hjá mér á þessum tíma, en þarna lærði ég grunninn að því að elda góðan mat. Svo hefur maður pikkað ýmislegt upp í gegnum tíðina sem nýtist við hitt og þetta tengt eldamennsku. Góður matur er leyndarmálið að lífshamingjunni!“

Kjartan segir að án Asana myndi hann eflaust gleyma helmingnum af því sem hann þarf að gera á hverjum degi. Allt er neglt í dagatalið: Vinnan, fjölsylduviðburðir, íþróttir barnanna og annað félagsstarf. Kjartan sendir mikilvæg verkefni beint úr póstinum í Asana og byggir þannig upp To-Do listann sinn. Vísir/RAX

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Við vinirnir erum búnir að reka Overcast síðan 2013 og samhliða því rekum við Áskell.is, sem er áskriftar- og innheimtuhugbúnaður auk þess að reka Guitarparty.com, sem er ótrúlega skemmtilegt verkefni.

Þessa dagana erum við mest að vinna stóru þróunarverkefni tengdu Áskeli og samþættingum við nýja færsluhirða. Þá erum við sérstaklega að horfa á hvernig við getum umbylt greiðslu-umhverfi fyrirtækja og félagasamtaka þar sem bæði er þörf á reglulegum greiðslum, eins og til dæmis áskriftum, og stökum greiðslum með djúpri samþættingu við öll viðskiptakerfi og vefi fyrirtækjanna. Þetta er gríðarlega skemmtilegt verkefni sem kallar á mikla samvinnu ólíkra aðila úr ólíkum áttum.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

Dagatalið og Asana eiga mig alla daga. 

Vinna og fjölskylduviðburðir, íþróttir barnanna og annað félagsstarf er neglt niður í dagatalið og án þess myndi ég sennilega mæta á fáa viðburði og án Asana myndi ég sennilega gleyma helmingnum af því sem ég þarf að framkvæma á hverjum degi. 

Til þess að hafa skipulag á vinnudeginum, þá sendi ég mikilvæg verkefni beint úr póstinum í Asana og byggi þannig upp To-Do listann á hverjum degi, eða deligera á annað starfsfólk hjá okkur.

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Mér finnst æðislegt að vera kominn upp í rúm ekki seinna en klukkan ellefu. Ekki samt til að fara að sofa strax, því það bíða yfirleitt einhverjir góðir félagar á blaðsíðum einhverra bóka sem ég er að lesa. Ég get gjörsamlega gleymt mér í lestri og það er ekki óalgengt að ég ranki við mér við það að ég missti lesbrettið á andlitið af þreytu.“


Tengdar fréttir

Svo fölsk að móðir hennar leitaði ráða hjá kórstjóranum

Með svefnstyggan eiginmann læðist Hulda Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Nox á Íslandi, fram úr tvisvar í viku fyrir ræktina en gæðastundin sem hún sá fyrir sér að yrði síðan með dótturinni í bílnum alla morgna, hefur hún lært að snúist meira um aukasvefn fyrir menntaskólanemann.

Sjúkur í Downton Abbey og með unglingastæla á kvöldin

Davíð Tómasson, framkvæmdastjóri Moodup og körfuboltadómari, segir stundum erfitt að ná sér niður í svefninn eftir að hafa verið að dæma leiki. Um þessar mundir sé hann líka að sofna óvenju seint sem hann segir skýrast af unglingastælum í sér.

Fermingar­myndin ekki til út­flutnings

Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu, segir engan hasar á morgnana lengur. Þau hjónin séu tvö með latan hund og oftar en ekki er Hrönn svo heppin að eiginmaðurinn gefur henni fyrsta kaffibollann um það leyti sem hún fer fram úr.

Prakkarastrik loks opinberað: „Það leiðréttist hér með!“

Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, opinberar sök í smá prakkarastriki á Skaganum þegar hann var sex ára en almennt telur hann sig ekki hafa verið mikinn prakkara í æsku. Uppáhaldsmorgnarnir eru þegar hann byrjar daginn í golf hermi með félögunum.

Forstjórinn sem saumar þjóðbúninginn öll mánudagskvöld

Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, byrjar daginn á því að fá sér kaffi með sínum besta manni. Öll mánudagskvöld situr hún með systrum sínum og saumar íslenska þjóðbúninginn undir handleiðslu móður sinnar og frænku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×