Íslenski boltinn

Kveðst viss um eftir­sjá Gylfa: „Hefðum unnið mótið í fyrra með hann“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi.
Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi. Vísir/Vilhelm

Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, er ánægður með komu Gylfa Þórs Sigurðssonar til félagsins. Hann hefur reynt að fá Gylfa til félagsins um langa hríð.

„Þetta er gríðarlega góð tilfinning og frábær viðbót við mjög góðan hóp. Núna erum við bara nokkuð klárir í þetta held ég,“ segir Kári í samtali við íþróttadeild.

Klippa: Gylfi hafi áttað sig á efirsjánni

Það hefur gengið á ýmsu bakvið tjöldin sem og fyrir opnum tjöldum síðustu vikur. Aðspurður um samningaviðræðurnar frá sjónarhóli Víkinga segir Kári:

„Auðvitað tók þetta smá tíma og verið í gangi í smá tíma. Við sendum inn tilboð í desember minnir mig, sem var hafnað. Svo byrjaði þetta aftur núna. Þetta er ekkert persónulegt í þessu, menn færa sig á milli liða í hverjum einasta glugga og þetta var ekkert frábrugðið því,“ segir Kári.

„Auðvitað endaði þetta í svolítið hárri upphæð og ég skil það vel að Valsmenn vilji fá háa upphæð fyrir svo góðan leikmann. Við vorum tilbúnir að borga það þannig að á nedanum eru allir ánægðir held ég,“ bætir hann við.

Breiðablik fékk einnig samþykkt tilboð í Gylfa. Kári kveðst þó ekki hafa haft áhyggjur af því að Gylfi færi í Kópavog.

„Ég var svo sem ekkert að hugsa um það. Ég var einblíndi bara á að ná honum yfir og reyna að sannfæra hann um að þetta væri staðurinn sem myndi henta honum best,“ segir Kári.

Víkingur reyndi að fá Gylfa þegar hann samdi við Val fyrir tæpu ári síðan. Liðið lagði þá fram tilboð í hann á miðju sumri og aftur eftir að síðustu leiktíð var lokið. Biðin hefur því verið umtalsverð.

„Ég held hann hafi áttað sig á því að hann hafi séð eftir því að hafa ekki valið Víking á sínum tíma. Ég er alveg fullviss um að við hefðum unnið mótið í fyrra með hann innanborðs,“ segir Kári.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×