Skoðun

Stækkum Sjálf­stæðis­flokkinn

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Það eru margar ástæður fyrir því að ég býð mig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins. Fyrst og fremst vegna þess að ég tel mig geta eflt flokkinn, aukið fylgi hans og tryggt að hann verði áfram leiðandi afl í íslensku samfélagi. Það er frumskylda formanns að tryggja að flokknum vegni vel, því sterkari Sjálfstæðisflokkur þýðir sterkari málsvari frelsis, atvinnulífs og framfara.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá stofnun verið hreyfiafl umbóta á Íslandi. Árið 1929 var stefna hans mörkuð með þessum orðum:

„Ísland taki að fullu og öllu sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina.“

„Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

Þessi gildi eiga jafn vel við í dag og þau áttu þá. En til að tryggja að þau verði að veruleika verðum við að sækja fram. Veikur Sjálfstæðisflokkur getur ekki staðið við stefnu sína og loforð við landsmenn. Þess vegna er mikilvægt að hann eigi sterka forystu sem vinnur að því að efla fylgið og ná til allra stétta, óháð bakgrunni eða búsetu.

Við horfum fram á mikla óvissutíma. Yfirvofandi átök í Evrópu vekja upp áhyggjur um öryggi og stöðugleika, á meðan vinstrimeirihluti í bæði ríkis- og borgarstjórn skapar pólitískt ástand sem krefst þess að við tölum ennþá hærra fyrir einstaklingsfrelsinu. Í aðstæðum sem nú eru uppi hefur Sjálfstæðisstefnan enn meira gildi. Hún leggur áherslu á sjálfstæði, ábyrgð og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, sem gerir okkur kleift að bregðast betur við óvissu og öflugri andstöðu. Með því að styrkja Sjálfstæðisflokkinn tryggjum við að Ísland haldi áfram að vera ljósið í myrkrinu, á föstum grunni frelsis og ábyrgðar.

Ronald Reagan komst vel að orði árið 1976:

„Ekkert kemur í stað sigurs.“

Þetta er auðvitað hárrétt. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er veikur tapar frelsið sínum sterkasta málsvara á Íslandi. Við höfum skyldu til að tryggja að hugsjónir okkar verði áfram grundvöllurinn að uppbyggingu Íslands til framtíðar. Þess vegna býð ég mig fram til að blása til sóknar, sameina krafta okkar og tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram leiðandi afl í íslensku samfélagi.

Höfundur er alþingismaður og frambjóðandi til formanns Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×