Fótbolti

Sigruðu meistarana í fyrsta leik í sögu „danska“ fé­lagsins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Daninn Anders Dreyer skoraði bæði mörkin í sögulegum sigri San Diego FC.
Daninn Anders Dreyer skoraði bæði mörkin í sögulegum sigri San Diego FC. Shaun Clark/Getty Images

MLS deildin hófst í nótt og nýja liðið San Diego FC lagði ríkjandi meistara LA Galaxy 2-0, í fyrsta keppnisleik í sögu félagsins. Daninn Anders Dreyer skoraði bæði mörkin fyrir „danska félagið“ San Diego FC. 

San Diego FC hlaut inngöngu í MLS deildina í ár og spilaði því fyrsta keppnisleik í sögu félagsins í nótt. Liðið hefur þó leikið æfingaleiki síðan það var stofnað fyrir tveimur árum.

Félagið er í eigu bresk/egypska auðjöfursins Mohamed Mansour. Sami aðili og á danska félagið FC Nordsjælland og fótboltaakademíuna Right to Dream, sem er starfrækt í Danmörku og Gana.

Frændur vorir virðast stoltir af því að „eiga“ lið í MLS deildinni. Fjölmiðlar ytra, Tipsbladet og Bold, tala um „danska félagið San Diego FC.“

Danirnir þrír fagna marki Dreyer.Shaun Clark/Getty Images)

Þrír danskir leikmenn eru líka í lykilhlutverkum hjá liðinu, fyrrnefndi markaskorarinn Anders Dreyer, framherjinn Marcus Ingvartsen og fyrirliðinn Jeppe Tverskov.

Liðið leikur sinn fyrsta heimaleik um næstu helgi og spennan í San Diego borg er mikil að mati fyrirliðans.

„Við höfum fundið fyrir spennunni byggjast upp síðustu vikur og ég ímynda mér að hún sé engu minni eftir úrslitin [gegn LA Galaxy]“ sagði Tverskov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×