Körfubolti

Fóturinn tekinn af körfuboltapabbanum kjaft­fora

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LaVar Ball er hreykinn af strákunum sínum.
LaVar Ball er hreykinn af strákunum sínum. vísir/getty

Taka þurfti hægri fótinn af LaVar Ball, föður körfuboltamannanna Lonzo, LiAngelo og LaMelo. 

TMZ Sports greinir frá því að hægri fótur LaVars hafi verið tekinn af. Ekki er vitað um nákvæma ástæðu þess.

LaVar var reglulega í fréttum fyrir nokkrum árum, bæði vegna afreka sona hans á körfuboltavellinum og oft á tíðum ótrúlegra yfirlýsinga um eigið ágæti. Hann sagðist meðal annars geta unnið sjálfan Michael Jordan í körfubolta, einn gegn einum.

LaVar stofnaði meðal annars skófyrirtækið Big Baller Brand en synir hans leika í skóm frá því.

LaMelo og Lonzo spila í NBA-deildinni. LaMelo er aðalstjarna Charlotte Hornets en félagið valdi hann með fyrsta valrétti í nýliðavalinu 2020. LaMelo var valinn nýliði ársins í NBA 2021. Á þessu tímabili er LaMelo með 27,3 stig, 5,1 frákast og 7,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Lonzo hefur verið í NBA síðan 2017 en lítið leikið undanfarin ár vegna erfiðra meiðsla. Hann hefur verið samningsbundinn Chicago Bulls frá 2021 en missti af tveimur heilum tímabilum. Lonzo hefur leikið þrjátíu leiki með Bulls í vetur og skorað í þeim 7,2 stig að meðaltali auk þess að taka 5,4 fráköst og gefa 5,1 stoðsendingu.

LiAngelo komst ekki að í NBA en hefur haslað sér völl sem rappari á undanförnum misserum. Hann gaf út lagið „Tweaker“ undir listamannsnafinu Gelo í síðasta mánuði og það skilaði honum samningi við útgáfufyrirtækið Def Jam Recordings.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×