Í ræðu sem hann hélt á fundi bakhjarla Úkraínu í Brussel í dag sagði Hegseth að Úkraínumenn þyrftu líklega að láta land af hendi í skiptum fyrir frið, þar sem ekki væri raunhæft að þeir gætu rekið Rússa á brott frá hernumdum svæðum.
Hegseth sagði að viðleitni við að reyna að ná þeim markmiðum myndi eingöngu framlengja átökin og valda meiri þjáningu.
Trump ætlar að sögn Hegseths að fá bæði Vólódímír Selenskí og Vladimír Pútín, forseta Úkraínu og Rússlands, að samningaborðinu.
Þar að auki sagði hann að leita ætti frekar til Evrópuríkja en Bandaríkjanna þegar kæmi að því að tryggja frið við Rússa til lengri tíma. Mikilvægt væri að tryggja frið til lengri tíma en þrátt fyrir það væri aðild Úkraínu að NATO ekki raunhæf.
Þetta var í fyrsta sinn sem fundi bakhjarlanna var ekki stýrt af Bandaríkjamönnum en að þessu sinni var honum stýrt af Bretum.
Sjá má ávarp Hegseths í spilaranum hér að neðan.
Góðar öryggisráðstafanir nauðsynlegar
Ráðamenn í Úkraínu, og þar á meðal Selenskí, hafa sagst tilbúnir til að gefa eftir landsvæði fyrir frið. Slíkum samningum þurfi þó að fylgja góðar og bindandi öryggisráðstafanir. Efst á lista þeirra yfir slíkar ráðstafanir er aðild að Atlantshafsbandalaginu.
Selenskí hefur varað við því að án aðkomu Bandaríkjanna eigi ríki Evrópu erfitt með að veita Úkraínumönnum góðar öryggisráðstafanir.
Án slíkra ráðstafana er, eins og áður hefur komið fram, fátt sem kemur í veg fyrir að Rússar byggi upp her sinn að nýju á nokkrum árum og geri aftur innrás í Úkraínu. Rússar væru í betri stöðu en Úkraínumenn til að byggja upp efnahag sinn og her á nýjan leik, vegna þeirra miklu skemmda sem árásir Rússa hafa valdið í Úkraínu.
Erfitt gæti verið fyrir Úkraínu að stöðva aðra innrás við slíkar kringumstæður.
Sjá einnig: „Heimurinn er að breytast, hvað sem er getur gerst“
Verði Úkraínumenn þvingaðir til óhagstæðs friðarsáttmála sem gæti leitt til nýs stríðs á komandi árum eru miklar líkur á því að þær milljónir manna sem hafa flúið land, og þar er að mestu um konur og börn að ræða, snúi aldrei aftur heim.
Evrópa þurfi að leggja meira til varnarmála
Í ávarpi sínu sagði Hegseth að öryggistryggingar handa Úkraínumönnum myndu ekki snúa að NATO, heldur yrðu ríki Evrópu að koma að því að tryggja öryggi. Engir bandarískir hermenn yrðu sendir til Úkraínu vegna einhverskonar friðarsamkomulags og ríkið yrði ekki varið með fimmtu grein stofnsamnings NATO, sem fjallar um sameiginlegar varnir aðildarríkja.
Ef friðargæsluliðar yrðu sendir til Úkraínu eða hermenn til að tryggja frið, yrðu ríki Evrópu að senda þá.
Hann sagði leiðtoga Evrópu þurfa að segja íbúum ríkja þeirra sannleikann. Eina leiðin til að tryggja frið væri að verja meira til varnarmála.
Tvö prósent af vergri landsframleiðslu væri ekki nóg. Trump hefði talað um að fimm prósent þyrfti til og því sagðist Hegseth sammála. Sagði hann Pólverja til að mynda vera að nálgast fimm prósentin og það gætu fleiri gert.
Hann sagði Bandaríkjamenn upptekna við að verja eigin landamæri og vegna ógnar frá Kína og þyrftu þeir að einbeita sér frekar að Kyrrahafinu en Evrópu.
Hegseth sagði Bandaríkjamenn standa í þeirri trú að Atlantshafsbandalagið væri alls ekki komið að leiðarlokum. Bandalagið myndi lifa margar kynslóðir í framtíðinni en Bandaríkjamenn myndu þó ekki sætta sig lengur við ójafnvægið þegar kæmi að fjárlögum til varnarmála. Evrópa þyrfti að standa sig betur.