Sport

Ólympíumeistari í bann til ársins 2031

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Lamaze með Ólympíugullverðlaun sín sem hann vann á leikunum í Peking árið 2008.
Eric Lamaze með Ólympíugullverðlaun sín sem hann vann á leikunum í Peking árið 2008. Getty/Julian Herbert/

Hestaíþróttamaðurinn Eric Lamaze vann Ólympíugull í Peking árið 2008 en nú má hann ekki koma nálægt íþrótt sinni næstu árin. Hann hefur verið dæmdur í bann til ársins 2031.

Hinn 56 ára gamli Lamaze var settur í nýtt fjögurra ára bann í viðbót við annað bann. Hann verður orðinn 63 ára gamall þegar hann má keppa á ný.

Þetta varð ljóst eftir úrskurð Alþjóða íþróttadómstólsins, Court of Arbitration for Sport (CAS). Lamaze braut lyfjareglur með því að skrópa í lyfjapróf í Hollandi árið 2021. Hann hafði áður verið dæmdur í bann.

Kanadamaðurinn tekur út núverandi bann fyrst en nýja bannið hefst ekki fyrr í september 2027 og stendur þá í fjögur ár.

Hann var fyrst dæmdur í bann í október á síðasta ári fyrir að neita að fara í lyfjapróf og falsa læknisgögn um að hann væri með krabbamein.

Hann hefur margoft fallið á lyfjaprófi á ferli sinum með kókaín í blóðinu. Hann slapp samt alltaf við langt bann þar sem hann þótti sannað að kókaínneysla hans hjálpaði honum ekki í keppni.

Hann missti þó vegna af bæði Ólympíuleikunum í Aþenu 1996 og Ólympíuleikunum i Sydney 2000 eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Lamaze náði ferlinum aftur á strik og hann vann gull í einstaklingskeppni og silfur í liðakeppni í hestaíþróttum á leikunum 2008. Hann vann einnig brons á leikunum í Ríó 2016 og hefur alls tekið þátt í þremur Ólympíuleikum.

Kanadamaðurinn hefur líka verið duglegur að koma sér í kast fyrir lögin fyrir fjársvik í kringum sölu á hestum en einnig fyrir að falsa læknisskjöl. Hann hefur fengið dóma í bæði Bandaríkjunum og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×