Innlent

Makaði saur um allt á salerni fyrir­tækis

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Áttatíu mál voru bókuð í kerfum lögreglu milli klukkan fimm í morgun og fimm síðdegis. Einn var vistaður í fangageymslu á tímabilinu. 
Áttatíu mál voru bókuð í kerfum lögreglu milli klukkan fimm í morgun og fimm síðdegis. Einn var vistaður í fangageymslu á tímabilinu.  Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í dag tilkynnt um einstakling sem búinn var að maka saur um allt inni á salerni hjá fyrirtæki í póstnúmeri 104 í Reykjavík. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar, þar sem segir að lögregla hafi vísað manninum út. Hvar atvikið átti sér stað liggur ekki fyrir. 

Í sama hverfi var tilkynnt um heimatilbúna sprengju utandyra. Við skoðun komst í ljós að búið væri líma tvær tívolíbombur saman. Málið var afgreitt af lögreglu.

Lögreglu var einnig tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í póstnúmeri 105, þar sem peningakassi hefði verið tekinn. Lögregla rannsakar málið. 

Þá var bæði lögreglu og slökkviliði tilkynnt af húsráðanda um mikinn reyk sem lagði frá örbylgjuofni í hverfi 108. Slökkviliðið reykræsti heimilið. Í sama hverfi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir, mann að flækjast í görðum með hanska og grímu. Engan var að sjá þegar lögreglu bar að garði. 

Loks var heldur óvenjulegt mál að finna í dagbókinni en fram kemur að klæðning hafi fokið af vegg lögreglustöðvarinnar að Dalvegi í Kópavogi. Upplýsingar um umfang tjónsins liggja ekki fyrir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×