Handbolti

Dagur fær tæki­færi á stóra sviðinu: Risa gluggi til að sýna mig og sanna“

Aron Guðmundsson skrifar
Dagur Gautason mættur í treyju Montpellier
Dagur Gautason mættur í treyju Montpellier Mynd: Montpellier

„Þetta risa gluggi til þess að sýna mig og sanna,“ segir hand­bolta­maðurinn Dagur Gauta­son er óvænt orðinn leik­maður franska stór­liðsins Montpelli­er eftir að hafa slegið í gegn í norsku úr­vals­deildinni með liði Aren­dal.

„Síðustu dagar hafa verið mjög súrealískir. Ég held það hafi verið á fimmtu­dagskvöld í síðustu viku sem um­boðs­maðurinn minn hringir í mig og segir að Montpelli­er vanti horna­mann núna strax og að þeir séu til­búnir í að borga mig út úr samningi mínum til þess að fá mig. Í kjölfarið fóru í gang viðræður milli félaganna um kaup­verð og það náðist sam­komu­lag á sunnu­deginum. Á þriðju­daginn síðastliðinn var ég svo mættur út á flug­völl með ferðatöskur. Síðustu dagar hafa verið mjög krefjandi en mjög skemmti­legir engu að síður,“ segir Dagur í sam­tali við Vísi.

Dagur, sem er upp­alinn hjá KA, hafði farið á kostum með Aren­dal í norsku úr­vals­deildinni og var hann valinn besti vinstri horna­maður deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur svo haldið áfram að standa sig vel í vetur og er langmarka­hæstur í liðinu með 83 mörk í 17 leikjum þegar þetta er skrifað og í 9. sæti yfir marka­hæstu menn í allri deildinni. Mörkin verða þó ekki fleiri í Noregi í bili.

Gíraðist strax allur upp

Hvernig var þér við þegar að þú fréttir af þessum áhuga Montpelli­er?

„Ég var sem sagt búinn að ákveða að finna mér nýtt lið fyrir næsta tíma­bil, samningur minn við Aren­dal var að renna sitt skeið og því voru ein­hverjar þreifingar farnar af stað en ekki af neinu viti. Síðan kom þetta upp og ég gíraðist strax allur upp. Dagarnir milli þess sem þetta fór í gang og var loksins komið í höfn voru mjög langir en þetta er frábært. Ég er mjög ánægður með að þetta hafi gengið upp.“

Montpelli­er hefur fjórtán sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2012, þrettán sinnum bikar­meistari og tvívegis unnið Meistara­deild Evrópu, síðast árið 2018. Montpelli­er er sem stendur í þriðja sæti frönsku deildarinnar skammt á eftir topp­liði Nan­tes og PSG. Þá er liðið komið í átta liða úr­slit í franska bikarnum og komið lang­leiðina í átta liða úr­slit Evrópu­deildarinnar.

Er þetta farið að renna upp fyrir þér af al­vöru, að þú sért mættur til Montpelli­er?

„Þegar að ég mætti á æfingu í gær fannst mér ég loksins finna fyrir því að þetta væri í al­vörunni að gerast,“ svarar Dagur. „Þegar að ég mætti á æfingu og hitti þjálfarann og leik­menn sem maður hefur fylgst með í mörg ár með lands­liðum og í Meistara­deildinni. Þegar að ég sat með þeim inn í klefa og þegar að ég borðaði með þeim, þá fannst mér þetta loksins vera að gerast í al­vöru.“

Munurinn stjarnfræðilegur 

Og móttökurnar hafa verið í takt við stærð liðsins.

„Frábærar móttökur. Utan­um­haldið og aðstaðan hérna er frábær. Strákarnir í liðinu hafa verið mjög hjálp­legir við að hjálpa mér að koma mér fyrir. Bæði í flutningunum en líka á æfingunum sjálfum með því að þýða frönskuna fyrir mig meðal annars. Það er einn Norðmaður á mála hjá liðinu og einn Svíi sem ég get talað við á norsku eða skandinavísku. Þetta hefur gengið mjög vel fyrir sig. Bæði leik­menn, þjálfarar og menn í kringum liðið hafa verið mjög hjálp­legir. Þetta hefur í raun verið mjög þægi­legt miðað við aðstæður“

Montpellier vann Meistaradeildina árið 2018Vísir/Getty

Og er það alveg greini­legt við komuna þangað að þú sért kominn á stærra svið?

„Já. Mér fannst munurinn á því sem að ég var vanur á Ís­landi og Noregi vera mikill. En munurinn hérna er eigin­lega stjarn­fræði­legur í aðstöðu, utan­um­haldi, gæðum og stærðar­gráðu á öllum sviðum. Munurinn er þvílíkur.

Það er búið að vera gríðar­lega mikið að gera síðustu tvo til þrjá daga. Það eru eigin­lega bara klukkutímarnir núna á fimmtu­degi þar sem að ég hef loksins fengið að anda smá. Ekki að keyra á milli lækna, fara í segul­ eða á æfingu.

Ég þarf að koma mér hratt inn í hlutina og er að vinna í því að læra það helsta. Kerfi og taktík. Planið er bar að spila eins vel og ég get. Samningurinn gildir út tíma­bilið en það er mögu­leiki á að fram­lengja um eitt ár ef að báðir aðilar samþykkja það. Mark­miðið er bara að spila eins vel og ég get og þá fram­lengja um eitt ár eftir tíma­bilið. Við sjáum bara hvernig það fer.“

Stórt tækifæri á stóru sviði

Hver eru skila­boðin sem þú ert að fá frá forráðamönnum liðsins og þjálfurum. Hvers er ætlast af þér?

„Lucas Pellas var náttúru­lega horna­maður nú­mer eitt hérna og lendir í því að slíta hásin. Það er annar horna­maður fyrir. Mér er ætlað að berjast við hann um þetta lausa sæti í byrjunar­liðinu. Hann væntan­lega hefur það til að byrja með alla­vegana og er mjög góður. Mark­mið mitt er bara að ógna hans stöðu eins mikið og ég get og spila sem mest.“

Sænski landsliðsmaðurinn Lucas Pellas hefur verið fyrsti kostur í vinstra horninu hjá Montpellier. Hann sleit hins vegar hásin á dögunum og verður frá í einhverja mánuði.Vísir/Getty

Í ljósi stöðunnar hjá þér þá er þetta ansi stór gluggi fyrir þig til þess að sýna þig og sanna á stóra sviðinu?

„Já al­gjör­lega. Franska deildin er ein sú besta í heiminum og Montpelli­er er risa félag innan Frakk­lands og spila í Evrópu­deildinni. Þetta er risa gluggi upp á fram­haldið hjá mér. Í fyrsta lagi með það í huga að geta spilað fyrir samningi á næsta tíma­bili hér en ef það gengur ekki þá er þetta risa gluggi til þess að sýna mig og sanna fyrir öðrum liðum sem hefðu þá kannski mögu­lega ekki sýnt mér jafn mikinn áhuga í norsku deildinni. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig upp á fram­haldið að gera.“

Þakklátur fyrir skilninginn

Hvernig brugðust vinnu­veit­endur þínir í Noregi við þessum vendingum?

„Ég er í raun mjög þakk­látur fyrir þann skilning sem þeir sýndu. Þeir vissu­lega fengu alveg fína upp­hæð fyrir mig en á sama tíma er ekkert sjálf­gefið fyrir þá að hleypa mér í burtu innan við viku í fyrsta leik eftir janúar pásuna. Ég er rosa­lega þakk­látur þeim fyrir það hversu mikinn skilning þeir sýndu, að hafa leyft mér að fara. Þeir tóku þessu furðu vel miðað við aðstæður.“

Það hefur gengið rosa­lega vel hjá þér í Noregi frá því að þú tókst skrefið þangað úr ís­lenska boltanum. Þú hlýtur að mæta fullur sjálf­s­traust út til Frakk­lands, full­viss um þína hæfi­leika innan vallar?

„Já klár­lega. Ég reyni að byggja ofan á það sem ég hef verið að gera í tæp tvö tíma­bil í Noregi. Leikstíll liðsins hentar mér held ég frábær­lega. Þeir keyra hratt, spila hratt og fá mikið af hraða­upp­hlaupum. Ég held að það spili mikið inn í það að þeir hafi leitað til mín eftir að þeir misstu Pellas. Ég held að ég smell­passi inn í þá hug­mynda­fræði sem liðið spilar eftir. Ég mæti með kassann út og staðráðinn í að spila eins vel og ég get.“

Töluvert betri leikmaður í dag

Hvernig hefurðu þróast sem leik­maður yfir tíma þinn í Noregi?

„Ég hef bætt mig mikið á flestum sviðum. Það gerði rosa mikið fyrir mig að fara í al­gjör­lega nýjar aðstæður, æfa öðru­vísi heldur en heima á Ís­landi. Norska deildin er öðru­vísi heldur en deildin heima. Hún er meira líkam­lega sterk, ég hef þurft að stíga upp þar og hef gert það bætt líkam­legan styrk sem og varnar­lega. Það var áskorun að takast á við stærri og meiri skrokka.“

Dagur Gautason fagnar marki í NoregiÖIF Arendal

„Síðan hef ég bætt ofan á það sem ég var að gera vel heima sem er að hlaupa hratt í hraða­upp­hlaupum og skora mörk. Ég myndi segja að ég hafi bætt mig á flestum sviðum hand­boltans og að auki þroskast mikið and­lega í ljósi þess að vera spila í öðru landi í öðrum aðstæðum. Ég myndi segja að ég væri tölu­vert betri leik­maður í dag en fyrir tveimur árum heima á Ís­landi.“

Talandi um það. Tvö ár síðan að þú hélst héðan af landi brott til Noregs. Hefðirðu geta gert þér það í hugar­lund að tveimur árum síðar værirðu mættur í franska boltann með Montpelli­er?

„Nei. Mark­miðið var alltaf að fara núna í stærra lið eftir tíma­bilið. Það voru ein­hverjar þreifingar farnar af stað en ég hafði nú ekki ímyndað mér að komast alveg á þetta stig í lið sem er að sækja í átt að öllum titlum sem í boði eru. Þetta er framar mínum vonum. Al­gjör­lega.“

Dagur lét til sín taka hér á Íslandi áður en að leið hans lá út í atvinnumennskuvísir/bára

Horfir til landsliðsins

Og Dagur á sér draum, líkt og aðrir at­vinnu­menn í hand­bolta, að spila fyrir land sitt.

„Að sjálfsögðu er það mark­miðið. Við vissu­lega erum nokkuð vel settir í vinstra horninu í dag. Bjarki Már er búinn að vera þarna í mörg ár og Orri Freyr var frábær á HM. Þá er Sti­ven Tobar að spila vel líka en að sjálfsögðu er mark­mið mitt að setja pressu á þá og ég tel að þetta skref hjálpi mér alveg tölu­vert með því að komast í eina af betri deildum Evrópu og topp­lið. Það er al­vöru áskorun.“

Orri Freyr Þorkelsson spilar einnig í vinstra horninu og fór á kostum á nýafstöðnu heimsmeistaramóti. Orri er leikmaður Sporting í PortúgalVÍSIR/VILHELM

Hann gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Montpelli­er á laugar­daginn kemur.

„Það er hörku vika og vikur fram­u. Átta liða úr­slit í bikar núna á laugar­daginn, Evrópu­deildin á þriðju­daginn og síðan heima­leikur á móti Nan­tes á laugar­daginn eftir rúma viku sem er einn af tveim stærstu heima­leikjum tíma­bilsins. Þeir færa sig í stærri höll fyrir þá leiki. Það má í raun segja að ég fari beint í djúpu laugina. Vissu­lega er kominn fiðringur en ég get ekki beðið eftir því að byrja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×