Körfubolti

Jimmy Butler endaði hjá Golden State

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jimmy Butler er orðinn leikmaður Golden State Wariors og liðsfélagi Steph Curry.
Jimmy Butler er orðinn leikmaður Golden State Wariors og liðsfélagi Steph Curry. Getty/ Brennan Asplen

NBA liðin Miami Heat og Golden State Warriors skiptust á leikmönnum í nótt og þar með líkur tíma Jimmy Butler hjá Miami.

Butler fer til Golden State en í staðinn fær Miami Heat þrjá leikmenn og valrétt í fyrstu umferð nýliðavalssins. Detroit Pistons er líka með í skiptunum og fær þá Lindy Waters og Josh Richardson. ESPN segir frá.

Leikmennirnir þrír sem eru nú orðnir leikmenn Miami Heat eru Andrew Wiggins, Dennis Schröder og Kyle Anderson. Miami ætlar þó ekki að halda Schröder. Allir eru þeir að renna út á samningi í sumar sem gefur Miami tækifæri að bjóða einhverjum stjörnuleikmanni stóran samning eftir tímabilið.

Butler vildi helst komast til Phoenix Suns en honum verður ekki að ósk sinni.

Hann hefur verið með Miami Heat frá árinu 2019 en hefur verið settur margoft í agabann í vetur eftir að hafa opinberlega talað um að hann nyti þess ekki lengur að spila í Miami og vildi komast í burtu. Hann hefur ekki spilað með Heat síðan 21. janúar.

Hinn 35 ára gamli Butler er með 17,0 stig og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í vetur.

Stephen Curry og Butler munu nú mynda nýtt tvíeyki hjá Golden State og það verður fróðlegt að sjá hvernig það kemur út.

Butler mun framlengja samning sinn um tvö ár við Golden State og fá fyrir það 121 milljón dollara.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×