AP greinir frá.
Flugvélin var tveggja hreyfla af gerðinni Learjet 55 og átti að flytja barn sem var nýbúið að hljóta meðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms. Auk barnsins voru móðir þess og fjórir starfsmenn Jet Rescue Air Ambulance um borð í flugvélinni. Allir um borð voru frá Mexikó.
„Við getum ekki staðfest neina eftirlifendur,“ sagði Shai Gold, talsmaður fyrirtækisins Jet Rescue Air Ambulance sem sér um sjúkraflug og átti flugvélina. Starfsmennirnir fjórir hafi verið reyndir í faginu sagði talsmaðurinn.
Flugvélin hrapaði til jarðar við gatnamót nálægt Roosevelt-verslunarmiðstöð í hinu þéttbýla hverfi Rhawnhurst. Flugvélin var á leið til Springfield-Branson-flugvallar í Missouri til að sækja eldsneyti en lokaáfangastaður flugsins var Tijuana í Mexíkó.
Sex fluttir á sjúkrahús
Ekki liggur fyrir hvort einhver á jörðu niðri slasaðist í flugslysinu en að minnsta kosti sex voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi í borginni.
Jennifer Reardon, talsmaður Temple-háskólasjúkrahúss, sagði sex hafa hlotið aðhlynningu vegna slyssins. Þrír þeirra hafi svo verið útskrifaðir og ástand hinna þriggja sé stöðugt. Hins vegar var ekki hægt að greina frá því hverjir áverkar fólksins voru né hvar fólkið var þegar það hlaut þá.
Flugslysið átti sér stað aðeins tveimur dögum eftir eitt mannskæðasta flugslys í sögu Bandaríkjanna þegar farþegaflugvél með sextíu farþega um borð hrapaði í Potomac-á fyrir utan Washington-borg eftir árekstur við herþyrlu.
Fimmtán mánuðir eru síðan flugvél á vegum Jet Rescue fór af flugbraut í Morelos í Mexíkó með þeim afleiðingum að hún lenti utan í nærliggjandi hlíð og fimm létu lífið.
Donald Trump bandaríkjaforseti brást við flugslysinu á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann sagði: „Svo sorglegt að sjá flugvélina hrapa til jarðar í Fíladelfíu.“