Danmörk, sem hefur staðið uppi sem sigurvegari á síðustu þremur heimsmeistaramótum, hefur ekki enn mætt ofjarli sínum á mótinu í ár og leikur kvöldsins var hálfgerður göngutúr í garðinum.
Um miðbik fyrri hálfleiks náðu Danir sjö marka forystu, 10-3, en Brasilíu tókst að minnka muninn niður í aðeins þrjú mörk fyrir hálfleik. Staðan þá 15-12 og Brasilía að einhverju leyti inn í leiknum.
Danir skoruðu tvö fyrstu mörk síðari hálfleiksins og þegar tíu mínútur voru liðnar skoruðu frændur vorir átta mörk í röð. Breyttu þeir stöðunni úr 23-18 í 31-18. Drap það endanlega leikinn sem endaði með tólf marka sigri Dana, lokatölur 33-21.
Að venju var Mathias Gidsel allt í öllu í sóknarleik Danmerkur með sex mörk og átta stoðsendingar. Emil Jakobsen og Rasmus Lauge skoruðu einnig sex mörk hvor. Vinicios Carvalho var markahæstur hjá Brasilíu með sjö mörk.
Danmörk komið í undanúrslit og mætir þar annað hvort Portúgal eða lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi. Væri það í annað skiptið sem Danmörk og Þýskaland mætast á mótinu. Í fyrri leik liðanna vann Danmörk auðveldan sigur.