Pútín sagði í viðtali við Rossiya 1 í gær að ef Selenskí vildi eiga aðkomu að viðræðum um vopnahlé í Úkraínu myndi hann, Pútín, gera út menn til að ræða við hann. Selenskí gæti hins vegar ekki undirritað neitt samkomulag, enda væri hann ekki lögmætur leiðtogi Úkraínu.
Rússlandsforseti og aðrir andstæðingar Selenskí hafa haldið því fram að í raun og veru sé hann ekki lengur forseti Úkraínu, þar sem kjörtímabil hans rann út 20. maí síðastliðinn. Efna hefði átt til kosninga 31. mars 2024.
Flestir stjórnarskrársérfræðingar eru ósammála en deilan snýst um það hvort stjórnarskráin heimili framlengingu kjörtímabilsins þegar herlög ríkja í landinu og kosningar eru bannaðar.
Pútín hefur sagst reiðubúinn til að ganga til viðræðna við Donald Trump Bandaríkjaforseta um leiðir til að binda enda á átökin í Úkraínu en Úkraínumenn hafa ítrekað að engar slíkar viðræður geti átt sér stað án aðkomu þeirra.
Selenskí sagði í gær að ummæli Pútín væru enn ein staðfesting þess að hann væri hræddur við viðræður, hræddur við sterka leiðtoga, og tilbúinn til að gera allt til að draga átökin á langinn.
Pútín hefur sagt að ef Vesturlönd hætta stuðningi við Úkraínumenn myndi stríðinu ljúka á tveimur mánuðum en leiða má líkur að því að sú niðurstaða yrði Úkraínu langt í frá hagfelld.