Körfubolti

Skoraði ó­trú­lega sigurkörfu fyrir aftan miðju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Traes Young fagna með honum eftir sigurkörfu hans gegn Utah Jazz.
Samherjar Traes Young fagna með honum eftir sigurkörfu hans gegn Utah Jazz. getty/Alex Goodlett

Trae Young var hetja Atlanta Hawks þegar liðið vann Utah Jazz, 121-124, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Hann skoraði sigurkörfu Haukanna með skoti fyrir aftan miðju.

Collin Sexton jafnaði metin fyrir Utah, 121-121, með þriggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru eftir.

Eftir það fékk Young boltann og lét vaða rétt fyrir aftan miðju. Og boltinn fór ofan í körfuna og Atlanta fagnaði sigri.

„Þegar það er tími eftir finnst mér við alltaf getað skorað,“ sagði Young eftir leikinn í Salt Lake City í nótt.

„Ég vissi að við hefðum þrjár sekúndur. Ég gæti rakið boltann aðeins og komist nær miðlínunni. Þá passaði ég að nota fæturna og ná krafti í skotið sem var mikilvægt.“

Young skoraði 24 stig í leiknum og gaf tuttugu stoðsendingar. Hann er fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA sem gefur tuttugu stoðsendingar og skorar sigurkörfu í sama leiknum.

Young er stoðsendingahæsti leikmaður NBA í vetur með 12,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er einnig með 22,5 stig og 3,5 fráköst í leik.

Atlanta er í 7. sæti Austurdeildarinnar með nítján sigra og átján töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×