Nokkuð mikið hefur verið fjallað um byggingu vöruskemmu við Álfabakka 2. Húsið sem þar rís er í fjórtán metra fjarlægð frá fjölbýlishúsinu við Árskóga. Á móti fjölbýlishúsinu er aðeins grænn veggur sem íbúar horfa á og eru ósáttir við. Þá skyggir húsið einnig á fjölbýlishúsið.
Skemman er í eigu Álfabakka 2 ehf. en þar á að koma fyrir matvinnslu á vegum Ferskra kjötvara fyrir Eldum rétt sem er í eigu Haga. Þá á einnig að koma fyrir í húsinu skrifstofum á þeirra vegum. Gert er ráð fyrir því að á lóðinni verði vöruskemma, verslanir og skrifstofuhúsnæði.
„Þetta er búið að eiga langan aðdraganda,“ segir Kristján. Sjálfur hafi hann flutt inn í húsið 2021. Þá hafi við hlið hússins verið fjórar lóðir sem áttu að vera fyrir þjónustu og verslanir.
„Þetta yrði vistlegt umhverfi. En svo varð raunin því miður önnur.“
Hann segir íbúa alls ekki hafa átt von á því sem svo kom í staðinn. Þetta hafi verið fjórar lóðir en framkvæmdaaðili hafi fengið leyfi til að sameina þær og byggt svo „gímaldið“ sem þar stendur í dag.
Upplifa svik
Kristján segist að eðlisfari bjartsýnn maður og hann hafi verið í góðu sambandi við fjárfestingarfélagið, Álfabakka 2, sem sér um byggingu hússins. Það hafi svo verið einhvern tímann í fyrra þegar það fór að syrta í álinn. Þau fylgdust fyrst með uppgreftrinum og svo grunninum.
„Áfram var ég bjartsýnn. En svo byrjar þetta stálgrindahús að rísa,“ segir Kristján og að byggingaraðilarnir hafi verið svo klókir að þeir byrjuðu fjærst blokkinni, nær Garðheimum. Svo hafi það færst nær þeim og þau orðið svartsýnni og svartsýnni.
„Svo allt í einu var bara kominn grænn veggur fyrir framan okkur. Ég ætla ekki að lýsa því ástandi sem varð á fólki þegar það gerði sér í raun og veru grein fyrir því hvað þarna var á ferðinni.“

Hann segir íbúa upplifa eins og þau hafi verið svikin. Ekki af Búseta heldur skipulagsyfirvöldum sem leyfðu byggingaraðilum að byggja eitt stórt hús.
Hann segir það kröfu íbúa að húsið verið rifið. Stálgrindahús séu boltuð saman og það eigi að vera auðvelt að losa boltana og rífa húsið. Það geri sér allir grein fyrir því að það kostar peninga og það gæti verið ágreiningur um það hver eigi að borga fyrir það.
„Við sættum okkur ekki við neitt annað. Það hefur komið upp sú hugmynd að stytta húsið. Það hefur komið upp sú hugmynd að jafnvel verði boðið að blokkin verði keypt og húsið verði látið standa. En það er ekki í boði að segja við einhvern að það sé nógu gott fyrir hann en ekki fyrir okkur,“ segir Kristján.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar er rætt við framkvæmdastjóra Búseta sem segist ekki geta séð að húsið geti verið áfram á þessum stað í núverandi mynd. Þar segir hann teikningarnar sem hafi á sínum tíma verið lagðar fyrir byggingarfulltrúa ekki standast reglugerð. Afstöðumynd sýni ekki önnur mannvirki innan 30 metra frá húsinu en fjölbýlishúsið við Árskóga 7 sé í 14 metra fjarlægð, og enn nær ef miðað er við svalir.
Í frétt Morgunblaðsins kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir allt að 200 bílastæðum við vöruskemmuna og 16 innkeyrsludyrum.
Kristján segir íbúa hafa miklar áhyggjur af því að þarna verði vöruflutningar allan sólarhringinn.
„Beint fyrir framan svefnherbergisgluggann hjá okkur verða innkeyrslur á fjóra eða sex rampa með tilheyrandi bakkpípi.“
Kristján segir umræðuna ekki hafa verið neina af hálfu Reykjavíkur við íbúa fjölbýlishússins. Hann viti til þess að það eigi að taka málið fyrir á borgarstjórnarfundi á morgun og íbúar hyggist þess vegna fjölmenna á fundinn.
Kristján segir svona stórt hús, með svona starfsemi, ekki eiga heima inni í íbúðabyggð. Kristján segir Búseta hafa verið íbúum klettur í allri þessari umræðu og veitt íbúum mikinn stuðning.
Sjá einnig: Dagsljósið hafi gleymst í þéttingu byggðar
Kristján segir skilaboðin til skipulagsyfirvalda skýr: að girða sig í brók.
„Að taka á þessu máli föstum tökum. Ég myndi helst vilja sjá að þetta hús væri rifið og byggt annars staðar. Við getum gert svo margt á þessu svæði sem gerir byggðina góða og vistvæna.“
Undirskriftasöfnun til að mótmæla áframhaldandi byggingu hússins þar til lausn finnst hefur staðið frá því í desember. Fleiri en þúsund hafa nú skrifað undir.

„Íbúar eru uggandi yfir möguleikanum á stóraukinni umferð, þá sér í lagi þungaflutninga, um svæðið. Efumst við um að framkvæmdir standist mat á umhverfisáhrifum. Við teljum einnig að byggingarmagn og hæð byggingarinnar muni hafa mikil áhrif á skuggavarp og valda skerðingu á sólarljósi, sem mun hafa mjög neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa nærliggjandi húsa. Að lokum teljum við að málsmeðferð þessa máls hafi verið fyrir neðan allar hellur og langt í frá í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Samráð og upplýsingaflæði Reykjavíkurborgar hafi verið ófullnægjandi og hvorki uppfyllt kröfur stjórnsýslulaga né skipulagslaga. Við krefjumst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan unnið er að farsælli lausn málsins öllum í hag,“ segir á island.is þar sem undirskriftasöfnunin fer fram.
Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst stóð að húsið væri í eigu Haga. Það er ekki rétt. Húsið er í eigu Álfabakka og öll framkvæmdin á þeirra vegum. Leiðrétt klukkan 12:34 þann 6.1.2025.