Nína mætti í Reykjavík síðdegis í gær og ræddi þættina, sem eru úr smiðju Vesturports og var fyrsti þáttur frumsýndur á nýársdag.
Hún rifjar upp heimsóknina og segir Vigdísi hafa kíkt við þegar tökur stóðu yfir í Iðnó, þar sem Vigdís var eitt sinn leikhússtjóri.
„Ég er nýbúin að fara úr bláu kápunni hennar, sem hún átti og var alltaf í á þessum tíma. Svo kemur hún inn í rýmið og þetta verður áþreifanlega magnað. Af því að ég er einhvern veginn að leika hana í aðstæðum sem hún hefur þegar verið í,“ segir Nína Dögg.
Vigdís hafi setið og horft á og viðstaddir notið þess að hafa hana á svæðinu.
„En ég þurfti alveg að berjast við tárin. Af því að ég var eiginlega í hálfgerðri geðshræringu að upplifa þetta. Að leika manneskju sem er síðan komin á staðinn.“
Nína Dögg lýsir Vigdísi sem skemmtilegri, öruggri og hnyttinni og þeim hafi komið vel saman.
„Ég ákvað að reyna að herma ekki eftir henni heldur taka eiginleika sem mér finnst hún hafa,“ segir Nína Dögg. „Allt mildið sem hún hefur, ótrúlega mikla birtu. Og svo er hún með lítinn prakkarapúka í sér. Svona innri prakkari.“
Hún segir ýmislegt koma fram í þáttunum um ævi og störf Vigdísar sem hinn almenni borgari viti ekki endilega, og nefnir bróðurmissinn og námsárin í Frakklandi sem dæmi.
„Þess vegna er frábært að gera þætti um hana þar sem þú færð heildarmynd af lífinu hennar frá þessum tíma. Frá því að hún er svona ung. Við þekkjum fleiri tímann þegar ég tek við af Elínu og leik hana,“ segir Nína Dögg.
Hægt er að hlusta viðtalið í heild sinni hér að neðan.