Innlent

Skóga­skóli verður hótel

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Skólahald var aflagt í Héraðsskólanum á Skógum 1999.
Skólahald var aflagt í Héraðsskólanum á Skógum 1999. ja.is

Fyrirtæki sem rekur þrjú hótel undir Eyjafjöllum í Rangárvallasýslu hefur keypt hús Héraðsskólans á Skógum af íslenska ríkinu. Til stendur að reka þar gistingu með morgunmat.

Morgunblaðið greinir frá þessu.

Haft er eftir Einari Þór Jóhannssyni, einum eiganda fyrirtækisins, að húsið sé í þokkalegu standi. Þar sé engan raka að finna og gluggar meira og minna heilir, en eitthvað þurfi þó að lagfæra, til að mynda skipta um gler.

Fram kemur að kaupverðið hafi verið 300 milljónir króna. Fyrirtæki Einars rekur Hótel Önnu á jörðinni Moldnúpi undir Eyjafjöllum og tvö hótel á Skógum, Hótel Skógá og Hótel Skógafoss.

Héraðsskólinn á Skógum var byggður eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, og var tekinn í notkun árið 1949. Skólahald lagðist af árið 1999, og húsið hefur staðið að miklu leyti autt síðan. Skógasafn hefur haft umsjón með byggingunni samkvæmt samningi við fyrri eigandann, ríkið, og þá hefur húsið verið leigt út undir hótelrekstur að sumri til með hléum.

Þá hefur húsið meðal annars verið leigt út til kvikmyndaverkefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×