Viðskipti innlent

„Lang­stærsta“ vikan í sögu Öl­gerðarinnar

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. VÍSIR/VILHELM

Sala hjá Ölgerðinni hefur aldrei verið meiri fyrir jól en í ár. Nýliðin vika var sú stærsta í sögu fyrirtækisins.

Þetta staðfestir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í samtali við Vísi. Spurður hvernig staðan sé á vinsælustu jóladrykkjum Íslendinga hjá Ölgerðinni núna degi fyrir aðfangadag segir Andri að venjulegt Malt og appelsín sé uppselt hjá fyrirtækinu þó að nóg sé eftir í verslunum landsins.

„Ég ætla ekkert að stressa þig en það er mjög mikið búið hjá okkur. Það er uppselt hjá okkur, flestar blöndurnar. Jólaölið, Malt og appelsín í gleri og venjulegt Malt og appelsín, það er eitthvað smá til af sykurskertu hjá okkur. Það er hins vegar nóg til í búðunum.“

Hann segist vera mjög ánægður með góða og mikla sölu á síðustu vikum.

„Jólaverslunin er búin að vera mjög góð og síðasta vika var stærsta vikan hjá Ölgerðinni frá upphafi. Bæði í umfangi og veltu þá er þetta langstærsta vikan sem við höfum séð.“

Spurður hvað skuli valda þessum mikla árangri segir hann:

„Það helgast nú að einhverju leyti að því hvernig jólin eru að leggja sig. Það eru fáir dagar á milli jóla og nýárs. Þannig að einhverjir eru að byrgja sig upp til öryggis. Verslunin er frábær, blöndurnar eru flestar uppseldar hjá okkur en fólk þarf ekki að örvænta það er nóg til í búðunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×