Í fréttum Stöðvar 2 hittum við Steingrím Magnússon. Hann er Norðlendingur, býr í Eyjafirði en ættaður úr Skagafirði og Svarfaðardal, segist vera kallaður Steini og vera vertinn á flugvellinum. En er einhver glóra í því að reka Flugkaffi á Akureyrarflugvelli?
„Nei, þetta er náttúrlega óttaleg vitleysa. Enda byrjaði ég 1. apríl á þessu ári. Þetta er bara aprílgabb,“ segir vertinn í viðtali á Stöð 2, sem sjá má hér:
Það reyndist þó meira fjör í flugstöðinni en hann hugði enda fara um 200 þúsund farþegar árlega um völlinn.
„Kom mér á óvart þegar ég byrjaði hvað flugið er mikið notað. En svo er náttúrlega orðið töluvert millilandaflug hérna.“
Hann annast einnig veitingasölu í nýju alþjóðaflugstöðinni en þar rekur hann Jæja barinn.

Þau eru tvö í fastri vinnu, hann og Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, en svo fá þau liðsauka á kvöldin og um helgar. Þannig áætlar hann að sex til átta manns starfi við Flugkaffið. Þar sé líflegt allan daginn og fram á kvöld.
„Kannski að mörgu leyti má segja að þetta sé svona hjartað á flugvellinum, þannig séð,“ segir Steingrímur.
Það sé mikið skrafað. Hann segist upplifa að fólkið sé það sjálft þegar það kemur á flugvöllinn og er að ferðast.

Þegar við spyrjum hvað sé vinsælast segir hann pönnukökurnar númer eitt.
„Þegar ég áttaði mig á því - það var reyndar ekkert langur fyrirvari á því að ég byrjaði hérna – þá var eins gott að læra að gera almennilegar pönnukökur.
Ég hafði aldrei gert pönnukökur áður. Systir mín sýndi mér kvöldið áður hvernig á að gera þetta. Svo bara lét ég vaða um morguninn. Ja, þær eru allavega orðnar vinsælar í dag þannig að maður hlýtur að vera að gera eitthvað rétt.“
Hann fékk þó aðhald frá forvera sínum, Baldvin Sigurðssyni.
„Baldvin, sem var hér í tuttugu ár, kom nokkuð ört fyrst og fylgdist með. Og hann kom með aðeins athugasemd sem ég tók mark á.“

Og Baldvin upplýsti um leyndarmálið.
„Það er kaffi í pönnukökunum. Baldvin sagði: „Þú verður að setja aðeins kaffi í pönnukökurnar. Þá færðu rétta litinn og gamaldags bragðið.“ Og ég náttúrlega hlýddi því bara,“ segir Steingrímur vert á Flugkaffinu á Akureyrarflugvelli.
Í síðustu viku var endurnýjaðri flugstöð fagnað á Akureyri, sem fjallað var um hér: