Erlent

Felldu tals­mann Hez­bollah í mið­borg Beirút

Kjartan Kjartansson skrifar
Reykur eftir sprengjuárásir Ísraela í sunnanverðu Líbanon í dag.
Reykur eftir sprengjuárásir Ísraela í sunnanverðu Líbanon í dag. AP/Bilal Hussein

Aðaltalsmaður Hezbollah-samtakanna féll í loftárás Ísraelshers á miðborg Beirút í Líbanon í dag. Ísraelar hafa gert harðar árásir á Líbanon undanfarnar vikur en fæstar þeirra hafa verið á miðborgina.

Heimildarmaður AP-fréttastofunnar innan Hezbollah fullyrðir að Mohammed Afif, yfirmaður almannatengsla þeirra, hafi fallið í árás á skrifstofu Baath-flokksins í miðborg Beirút. Afif þessi hafði verið sérstaklega áberandi eftir að stríð braust út á milli Hezbollah og Ísraelshers í september og fall Hassans Nasrallah, leiðtoga samtakanna.

Opinberar tölur um mannfall í árásinni liggja ekki fyrir en ljósmyndari AP sá fjögur lík og fjóra særða á vettvangi.

Síðast réðst Ísraelsher á miðborg Beirút 10. október en þá féllu tuttugu og tveir í árásum á tvo staði. Fleiri en 3.400 manns hafa fallið í árásum Ísraela á Líbanon, flestir þeirra í sunnanverðu landinu þar sem höfuðvígi Hezbollah er.

Þá féllu tólf manns í árásum Ísraela í Nuseirat og fjórir til viðbótar í Bureij á Gasa í nótt samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda þar.


Tengdar fréttir

Naim Qassem tekur við stjórn Hezbollah

Forsvarsmenn Hezbollah samtakanna í Líbanon tilkynntu í morgun að Naim Qassem myndi taka við stjórnartaumunum af Hassan Nasrallah, sem felldur var í loftárás í síðasta mánuði. Qassem var næstráðandi Hezbollah en Hashem Safieddine, sem var arftaki Nasrallah, var einnig felldur í loftárás í byrjun október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×