Körfubolti

Frá­bær endurkomusigur hjá toppliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð.
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð.

Topplið Hauka vann góðan endurkomusigur á Þór frá Akureyri þegar liðin mættust í Bónus-deild kvenna í dag.

Gestirnir frá Akureyri kom af krafti inn í leikinn gegn toppliði Hauka. Þórskonur voru í 7. sæti deildarinnar fyrir leikinn en leiddu 23-16 eftir fyrsta leikhlutann og héldu áfram að bæta í fram að hálfleik. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 46-37 Þór í vil.

Þór hélt frumkvæðinu í upphafi síðari hálfleiks en um miðbik þriðja leikhluta náðu Haukar að minnka muninn í fjögur stig í stöðunni 61-57. Þá kom hins vegar áhlaup hjá gestunum sem náðu mest þrettán stiga forskoti á þeim tveimur mínútum sem eftir lifðu af þriðja leikhluta. Staðan 73-60 og Þór í góðri stöðu.

Í lokafjórðungnum virtist hins vegar sem Þórsliðið væri sprungið á limminu. Einungis átta leikmenn voru á leikskýrslu hjá Þór í dag og af þeim komu aðeins sex við sögu í leiknum. Það virtist hafa áhrif því Haukar breyttu stöðunni úr 75-62 fyrir Þór yfir í 82-79 sér í vil á aðeins fjórum mínútum. 20-4 áhlaup og Þór náði ekki vopnum sínum á ný eftir það.

Topplið Hauka vann að lokum góðan endurkomusigur, lokatölur 94-85 en Haukar unnu fjórða leikhluta 34-12.

Diamond Battles var stigahæst hjá Haukum með 33 og Lore Davos skoraði 24 gegn sínum gömlu félögum. Fyrir Þór skoruðu Amandine Toi og Eva Elíasdóttir báðar 22 stig og Madison Sutton bætti við 13 stigum auk þess að taka 20 fráköst.

Haukar halda toppsætinu eftir sigurinn en Haukaliðið var tveimur stigum á undan Suðurnesjaliðunum Njarðvík, Keflavík og Grindavík fyrir umferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×