Sport

„Erum lág­vaxið lið í þessum glugga og þurfum að vera villingar“

Andri Már Eggertsson skrifar
Benedikt Guðmundsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Benedikt Guðmundsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Anton Brink

Íslenska landsliðið í körfubolta tapaði gegn Slóvakíu 70-78 í undankeppni EM. Benedikt Guðmundsson, þjálfari liðsins, var svekktur með niðurstöðuna en var þó jákvæður.

„Við vorum yfir þremur mínútum lengur en þær í leiknum. Fyrir mér var þetta jafn leikur en þær settu stóra þrista í fjórða leikhluta og hver þristur var eiginlega meira en þrjú stig og á meðan vorum við ekki að setja okkar skot ofan í,“ sagði Benedikt Guðmundsson í viðtali við Vísi eftir leik.

Benedikt var ánægður með kraftinn í íslenska liðinu sem byrjaði leikinn mjög vel og gerði átta stig í röð í fyrsta leikhluta.

„Þetta var frábær byrjun. Við lögðum upp með að fyrstu fimm mínúturnar myndu setja tóninn sem það gerði bæði í byrjun fyrri hálfleiks og seinni hálfleiks. Mér fannst allar skila baráttu og orku. Þetta var hrikalega erfitt og ég held að staðan í frákastabaráttunni hafi verið 8-29. En við vorum að taka spretti út um allt og hlaupa inn í teig og út aftur. Ég get ekki annað en hrósað mínu liði.“

Íslensku stelpurnar byrjuðu seinni hálfleik af krafti á báðum endum vallarins og gerðu fyrstu tíu stigin.

„Það hefði verið auðvelt að vera litlar og að stóra liðið myndi taka yfir en þær voru ekkert að leyfa það. Við fórum að vera villtar og tókum snögga þrista og það var það sem við þurftum að gera. Við erum með mjög lágvaxið lið í þessum glugga og við þurfum að vera villingar og taka þristana sem við fáum og taka áhættu.“

Danielle Rodrigu­ez og Kol­brún María Ármanns­dótt­ir voru báðar í byrjunarliðinu í sínum fyrsta A-landsleik og Benedikt hrósaði þeim í hástert.

„Danielle var frábær frá byrjun og eðlilega var Kolbrún stressuð í byrjun en síðan mætti hún í seinni hálfleik og var geggjuð. Hún er sextán ára og það á engin sextán ára að byrja inn á í landsliði. Þetta er topp leikmaður sem er í landsliðsklassa og hún er ógn sóknarlega og spilar frábæra vörn. Hún er rétt að byrja sinn langa landsliðsferil,“ sagði Benedikt Guðmundsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×