Ég hef mikið verið að gramsa eftir bókum skrifuðum um konur, helst um konur sem ekki eru sérlega þekktar. Allavega ekki hjá minni kynslóð. Í þessu gramsi mínu rakst ég fyrr á þessu ári á tvær bækur sem heita Aldrei nema kona (2020) og Aldrei nema vinnukona (2022) og eru eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur.

Ég las þær og þótti þær alveg frábærar og var því virkilega glöð þegar ég sá að útgáfufyrirtækið Króníka gaf út nú í síðasta mánuði þriðju bókina í þessum bókaflokki eftir Sveinbjörgu, sú ber titilinn Aldrei aftur vinnukona.
Þessar bækur eru afrakstur ættfræðigrúsks höfundar en hún hóf fyrir nokkrum árum að skoða móðurætt sína og eins og segir aftan á kápu nýjustu bókarinnar, þá varð þetta grúsk að þriggja bóka flokki.
Bækurnar eru heimildaskáldsögur og fylgja sögu kvenna úr ætt höfundarins á 18. og 19. öld. Sögu fátækra kvenna sem með þrautseigju og æðruleysi takast á við lífið og tilveruna á þeim tíma sem þær voru uppi.
Sker sig úr
Aldrei aftur vinnukona sker sig aðeins frá fyrstu tveim bókunum, þó hún sé framhald þeirra, því þar fylgja lesendur eftir Þuríði sem ákvað að ferðast alla leið til Ameríku í leit að betra lífi. Lífið var orðið erfitt á Íslandi og Þuríður vildi frekar taka áhættuna og sjá hvað væri í boði hinu megin við hafið heldur en að hýrast áfram ævilangt sem vinnukona á Íslandi. Við fylgjumst því með ferðalagi hennar og samferðafólks hennar til Ameríku og fyrstu árunum þar. Einnig fylgjumst við með systur Þuríðar í gegnum dagbókarskrif en hún bjó áfram á Íslandi og ól þar upp sín börn.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni hér. Lesa má um fleiri bækur á Lestrarklefinn.is.