Körfubolti

Grizzlies semja við lágvaxnasta leik­mann NBA deildarinnar

Siggeir Ævarsson skrifar
Yuki Kawamura í leik með japanska landsliðinu á Ólympíuleiknunum í París í sumar. Victor Wembanyama (nr. 32) hávaxnasti leikmaður deildarinnar, kemur engum vörnum við.
Yuki Kawamura í leik með japanska landsliðinu á Ólympíuleiknunum í París í sumar. Victor Wembanyama (nr. 32) hávaxnasti leikmaður deildarinnar, kemur engum vörnum við. EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI

Memphis Grizzlies hafa samið við japanska bakvörðinn Yuki Kawamura sem þætti kannski ekki fréttnæmt nema fyrir þá staðreynd að Kawamura er aðeins 173 cm á hæð og verður því lágvaxnasti leikmaður deildarinnar í vetur.

Samkvæmt ESPN blaðamanninum Shams Charania verður Kawamura á svokölluðum „two way“ samningi en leikmenn á slíkum samningum mega gera ráð fyrir að verja megninu af tímabilinu í G-deildinni og í mesta lagi 45 dögum með aðalliðinu.

Kawamura, sem er fæddur árið 2001, hefur farið á kostum með Yokohama B-Corsairs í japönsku B-deildinni og skoraði tæpt 21 stig að meðaltali í leik í fyrra og gaf átta stoðsendingar. Hann vakti töluverða athygli á undirbúningstímabilinu með Grizzlies fyrir sendingagetu sína 

Kawamura er sem áður sagði 173 cm, eða 5'8 fet, og er aðeins níundi leikmaður í sögu deildarinnar sem er 173 cm eða lágvaxnari. Til samanburðar er Victor Wembanyama 221 cm. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×