Gurrý, eins og hún er jafnan kölluð, og Andri reka saman bæði Barna- og Extraloppuna og hafa verið saman frá því þau voru rúmlega tvítug. Þau giftu sig upphaflega árið 2011 en ákváðu að endurnýja hjúskaparheitin með stæl. Blaðamaður ræddi við Gurrý um þennan ógleymanlega dag.

Hvenær ákváðuð þið að endurnýja hjúskaparheitin?
Við erum búin að skulda brúðkaupsveislu í einhvern tíma og fannst þetta frábært tækifæri til að bæta þessu inn í fertugsafmælis prógrammið. Þarna var allt okkar besta fólk samankomið og fullkomið tilefni til að skjóta þessu með.
Andri bað mín á flugvellinum í Kastrup sumarið 2011 og við giftum okkur svo á pappírum í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn í október sama ár.

Hvað eruð þið búin að vera lengi saman og hvernig kynntust þið?
Við erum búin að vera saman í tæp sautján ár en við kynntumst einmitt á gamla Apótekinu þegar það var skemmtistaður hér í den. Bæði nýkomin úr sambandi á þeim tíma og alls ekki að leita að neinu eins og það er svo oft.
Hins vegar höfðum við alltaf vitað af hvort öðru, við vorum saman í grunnskóla í Hafnarfirðinum og því þess vegna sem við byrjuðum að spjalla þetta kvöld, til að rifja upp gamla tíma.

Var ekki erfitt að halda þessu leyndu og koma afmælisgestunum á óvart?
Jú það var mjög erfitt, við sögðum ekki einu sinni börnum okkar frá þessu fyrr en nokkrum dögum áður. Mjög gaman hvað þessi óvænta uppákoma heppnaðist vel, það voru nokkrir sem vissu samt því maður þarf hjálp við að plana svona uppákomu, til að mynda var vinkona mín „presturinn“, vinur okkar veislustjórinn og önnur sem tók þetta allt upp á myndband.

Hvað stendur upp úr frá kvöldinu?
Heyrðu þetta var svo magnað kvöld að það er erfitt að velja eitthvað eitt en brúðkaups „surprise-ið“ er klárlega það sem stendur upp úr.
Við vissum svo sem að þetta yrði magnað en VÁ, það var bara ekki þurrt auga í salnum á þessu augnabliki.
Ótrúlega fallegt hvað fólkið okkar lifði sig inn í þetta með okkur. Það verða nefnilega allir svo extra hamingjusamir á svona stundu og það skein í gegn þetta kvöld.

Hvernig gekk að velja brúðarkjólinn og varstu með fataskipti?
Það var ekkert mál, ég fékk lánaðan kjól hjá vinkonu minni en hún aðstoðaði mig að hafa fataskipti í lítilli kompu í salnum.
Það var smá bras að lauma sér þangað inn svo enginn sæi en þetta gekk smurt fyrir sig og tók um þrjár mín að fara í kjólinn, setja upp blómakrans í hárið og kippa brúðarvendinum með.

Lagið undir var líka svo tryllt en við spiluðum „Power of love“ með Celine Dion þegar ég labbaði inn með pabba. Ég náttúrulega elska Celine og hún bara varð að fá að vera partur af brúðkaupinu mínu.
Voruð þið lengi að undirbúa partýið? Og eruð þið miklir kúrekaaðdáendur?
Já erum búin að vera plana og skipuleggja í nokkra mánuði. Höfum lengi ætlað okkur að halda brúðkaupspartý en alltaf guggnað á síðustu stundu eða ekki fundist rétti tíminn eða staðurinn fyrir það.
Svo bara gerist lífið og við allt í einu orðin fertug (samt alltaf 25 þú veist) þannig okkur fannst þetta vera besta lausnin, að slá þessu saman og fara bara „all in“ eins og sagt er.

Við vorum smá efins fyrst um að vera með þema, en það er bara alltaf aðeins skemmtilegra að vera með þema og því ákváðum við að slá til.
Það var aldrei neinn vafi með hvert þemað yrði því Andri var náttúrulega klárlega kúreki í fyrra lífi og var líklega uppi á tímum villta vestursins en það er mikið um kántrítónlist á okkar heimili og það hefur klárlega smitast yfir á mig og stelpurnar okkar.
Við fáum líka svolítið útrás fyrir þetta þegar við förum í veiði á sumrin, þá eru hattarnir og bolo-bindin tekin upp.
Svo gáfum við Andri hvort öðru einmitt tryllta kúrekahatta í afmælisgjöf frá SigzonHats en hann gerir hatta frá grunni alveg eins og þú vilt hafa hann. Algjör snillingur!









