Íslenski boltinn

„Röð til­viljana að HK sé ekki búið að fá víti í sumar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vítaleysi HK var rætt í Stúkunni í gærkvöldi.
Vítaleysi HK var rætt í Stúkunni í gærkvöldi.

Í Stúkunni í gær var farið yfir leik HK og Fylkis um helgina sem endaði með 2-2 jafntefli og féll Fylkir í kjölfarið úr efstu deild. HK berst enn þá fyrir lífi sínu í deildinni og verður erfitt fyrir liðið að bjarga sér.

HK er sem stendur í næst neðsta sætinu með 22 stig, þremur stigum á eftir Vestra. Vestri með mun betri markatölu og því verður HK að vinna síðustu tvo leikina og freista þess að Vestri misstígi sig.

En HK hefur ekki fengið eina einustu vítaspyrnu dæmda á tímabilinu og eru þeir allt annað en sáttir með það. Til að mynda vildu þeir fá dæmda vítaspyrnu í leiknum gegn Fylki. Stúkumenn fóru yfir nokkur dæmi þar sem HK hefði líklega átt að fá vítaspyrnu í sumar.

„Það er ekki hægt að ætla dómurum að þér séu eitthvað á móti HK. Ég held að þetta sé bara algjörlega röð tilviljana að HK sé ekki búið að fá víti í sumar. Auðvitað er búið að taka saman nokkur atriði þar sem þeir hefðu átt að fá víti en það er líka þannig að því oftar sem boltinn er inn í teig hjá andstæðingunum þá eru meiri líkur á að fá víti. Boltinn er búinn að vera aðeins of sjaldan þar hjá HK í sumar. En ég skil svekkelsið og það eru þarna alveg klár dæmi,“ segir Baldur Sigurðsson í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.

Klippa: „Röð tilviljana að HK sé ekki búið að fá víti í sumar“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×