Hópur á vegum Eflingar mótmælti meintum launaþjófnaði fyrir utan veitingastaðinn í síðasta mánuði. Síðan þá hefur sendiferðabíl á vegum stéttarfélagsins verið lagt fyrir utan veitingastaðinn sem á eru letraðar ásakanir um launaþjófnað, vinnuréttarbrot og skattsvik.
Forsvarsmenn Eflingar höfnuðu því að fjarlægja bílinn þrátt fyrir að hópur núverandi starfsfólks Ítalíu hefði mótmælt við skrifstofur stéttarfélagsins á föstudag. Starfsfólkið sagðist óttast að missa störf sín á staðnum þar sem skilaboð Eflingar fældu frá viðskiptavini.
Elvar Ingimarsson, eigandi Ítalíu, segir að staðurinn hafi verið lokaður frá því í síðustu viku á meðan farið sé yfir málið. Ekki sé ljóst hvort hann verði opnaður aftur en það verði þá að minnsta kosti ekki á Frakkastíg. Ekki sé búið að ákveða að loka staðnum varanlega og engum hafi enn verið sagt upp störfum.
„Ég ætla bara að byrja á því að svara þessum ásökunum og sjá svo bara til með framhaldið,“ segir Elvar.
Lögfræðingur hans hafi ítrekað við Eflingu að fá upplýsingar um á hvaða gögnum félagið byggi ásakanir sínar.
„Við fáum engin svör. Samkvæmt okkar bókum erum við með þessa pappíra alla á hreinu.“
Segir starfsfólk enn eiga inni laun
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fullyrti að Elvar hefði enn ekki greitt stórum hópi fólks laun og að hann skuldaði skattinum tugi milljóna króna á föstudag. Efling ætlaði þess vegna ekki að hætta herferð sinni gegn fyrirtækinu.
Elvar hafnaði þessum ásökunum í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 fyrir helgi en viðurkenndi að greiðslur í lífeyrissjóði og stéttarfélög hefðu dregist. Fullyrti hann að unnið væri að því að lagfæra það.