Lífið

Covidsmitaður Al Pacino var nær dauða en lífi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Al Pacino faðmar leikstjórann goðsagnakennda Martin Scorsese.
Al Pacino faðmar leikstjórann goðsagnakennda Martin Scorsese. EPA

Bandaríski stórleikarinn Al Pacino segist hafa verið nær dauða en lífi árið 2020 þegar hann var smitaður af Covid-19.

Þetta kemur fram í viðtali New York Times við Pacino í tilefni af ævisögu hans Sonny Boy. Leikarinn sem hefur til að mynda gert garðinn frægan sem Michael Corleone í Guðföðurþríleiknum er í dag 84 ára gamall.

„Þau sögðu að púlsinn minn hefði farið,“ segir Pacino um upplifunina. „Það sem að gerðist var að mér leið ekki vel, óvenjulega illa. Síðan varð ég veikur og var að þorna upp og svoleiðis.“

Hann segist hafa verið búinn að kalla til hjúkrunarfræðing og setið á heimili sínu þegar púlsinn hafi skyndilega farið.

„Á örfáum mínútum voru þeir komnir. Sjúkrabíllinn var við húsið, sex sjúkraflutningamenn í stofunni og tveir læknar. Þeir voru í svona göllum eins og þeir væru úr geimnum eða eitthvað. Það var eiginlega sjokkerandi að opna augun og sjá þetta. Allir voru í kringum mig og sögðu: Hann er kominn aftur. Hann er hér.“

Al Pacino segir þessa upplifunina hafa haft áhrif á sig.

„Ég sá ekkert hvítt ljós eða svoleiðis. Það var ekkert þarna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×