Hamilton er sigursælasti Formúlu 1 ökuþór sögunnar með jafnmarga heimsmeistaratitla og sjálf goðsögnin Michael Schumacher og eftir yfirstandandi tímabil mun hann feta í fótspor Schumacher og ganga til liðs við Ferrari og reyna þar að koma ítalska risanum aftur á sigurbraut.
Akstursíþróttaferill Hamilton hefur staðið yfir frá því að hann var sex ára gamall en í dag er Hamilton 39 ára. Snemma á ferlinum gerði þunglyndi vart um sig hjá Bretanum og hefur það teygt sig inn á seinni hluta ferilsins.
„Ég held að það stafi út frá pressunni sem fylgir því að vera í þessu sporti en á sama tíma átti ég erfitt uppdráttar í skóla. Varð fyrir einelti. Ég hafði engan til að tala við,“ segir Hamilton í viðtali við Times.
Eftir því sem liðið hefur á hefur Hamilton, sem hóf feril sinn í Formúlu 1 árið 2007, náð betri tökum á og unnið með andlega líðan sína.
„Maður lærir um hulti sem maður hefur erft frá foreldrum sínum, tekur eftir ákveðnu mynstri í því hvernig maður bregst við ákveðnum hlutum og aðstæðum. Hvernig maður getur tekist á við slíkar aðstæður. Það sem að gæti hafa komið illa við mig hér áður fyrr varðandi fortíðina hefur kannski ekki haft áhrif á mig núna.“