Albert skoraði tvö í fyrsta leiknum fyrir Fiorentina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar fyrra marki sínu gegn Lazio.
Albert Guðmundsson fagnar fyrra marki sínu gegn Lazio. getty/Andrea Martini

Albert var lánaður til Fiorentina frá Genoa um miðjan ágúst. Hann hefur glímt við meiðsli og því varð talsverð bið á því að hann þreytti frumraun sína með Fiorentina.

Albert var í leikmannahópi Fiorentina þegar liðið tók á móti Lazio í dag. Hann byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður í hálfleik ásamt Luca Ranieri. Lazio leiddi í hálfleik en Mario Gila kom liðinu yfir á 41. mínútu.

Í upphafi seinni hálfleiks braut Matteo Guendouzi á Alberti innan vítateigs og vítaspyrna var dæmd. Albert fór sjálfur á punktinn og skoraði framhjá Ivan Provedel í marki Lazio.

Á lokamínútu leiksins fékk Fiorentina aðra vítaspyrnu. Aftur steig Albert á punktinn og aftur skoraði hann og tryggði þeim fjólubláu sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Lokatölur á Stadio Artemio Franchi í Flórens, 2-1, Fiorentina í vil.

Albert hefur nú skorað sextán mörk í ítölsku úrvalsdeildinni frá byrjun síðasta tímabils. Hann skoraði fjórtán deildarmörk fyrir Genoa í fyrra.

Með sigrinum komst Fiorentina upp í 10. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Liðið er með sex stig eftir fimm leiki en það hafði ekki unnið sigur í vetur fyrir leikinn í dag. Lazio er með sjö stig í 7. sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira