Erlent

Lífvarðaþjónustan segist með­vituð um tíst Musk um Biden og Harris

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk eyddi færslunni skömmu eftir að hann birti hana.
Musk eyddi færslunni skömmu eftir að hann birti hana. Getty/Gotham/GC Images

Talsmenn Lífvarðaþjónustu Bandaríkjanna (e. Secret Service) segjast meðvitaðir um færslu sem frumkvöðullinn og athafnamaðurinn Elon Musk birti á X, þar sem hann vakti athygli á því að enginn væri að reyna að ráða Joe Biden og Kamölu Harris af dögum.

Tilefni færslunnar var handtaka manns sem er grunaður um að hafa ætlað að bana Donald Trump á einum golfvalla hans í Flórída en um er að ræða annað tilræðið gegn Trump á skömmum tíma.

Musk er ötull stuðningsmaður Trump, sem hefur áhuga á að skipa vin sinn til að fara fyrir nefnd um skilvirkni stjórkerfisins ef hann nær kjöri í forsetakosningunum 5. nóvember næstkomandi.

Musk lýsti yfir stuðningi við Trump eftir banatilræðið á baráttufundi í Pennsylvaníu í júlí síðastliðnum og hefur síðan notað X til að gagnrýna Biden og Harris.

Eftir að hafa eytt fyrrnefndri færslu sagðist athafnamaðurinn, sem er meðal ríkustu manna heims, að hann hefði lært að jafnvel þótt hann segði brandara sem fólki þætti fyndinn þýddi það ekki að hann skilaði sér jafnvel á X.

„Kemur í ljós að brandarar eru mun minna fyndnir ef fólk veit ekki samhengið og þeir eru skrifaðir niður,“ sagði Musk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×