Verkefnastjóri segir víxlverkandi verðlækkanir hafa sést eftir að Prís opnaði um síðustu helgi með það yfirlýsta markmið að vera ódýrasta verslunin á markaði. Þá hafi Krónan einnig brugðist við með því að lækka verð sín.
Hefðu mátt lækka fyrr
„Bónus hefur greinilega haft pláss til þess að lækka hjá sér. Það er gleðilegt að þeir séu að því en það hefði mátt gerast fyrr. Það er gaman að sjá að það er kapp hlaupið í dagvörumarkaðinn, tími til kominn,“ segir Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ.
Verðkönnun dagsins sýni að sjötta hver vara sé á tíu prósenta lægra verði í Prís samanborið við Bónus og meira en þriðjungur sé með yfir fimm prósenta verðmun. Á sama tíma sé verð í Krónunni einni krónu hærra en í Bónus í þremur af hverjum fjórum tilfellum.
„Það er eins og það sé búið að hræra í pottinum. Það er loksins einhver hreyfing. Það er ekkert of langt gengið að kalla þetta verðstríð en í mörgum tilfellum er verið að keppast bara um að vera krónu undir, þannig að það er alveg svolítið um það. Það er kannski þar sem hreyfingin er tíðust,“ segir Benjamín.
Mikill munur á sumum vörum
Mun meiri munur er á vissum vörum í Prís og Bónus og nefnir Benjamín til dæmis Myllu Heimilisbrauð og Lífskornabrauð, lifrarpylsu í sneiðum og Kúlusúkk.
Samkvæmt nýjustu skráningum í gagnagrunni verðlagseftirlitsins kostar heilt Myllu Heimilisbrauð 299 krónur í Prís en 569 krónur í Bónus. SS soðin lifrarpylsa 160 grömm kostar 265 í Prís en 329 í Bónus og Sambó Kúlusúkk 449 krónur í Prís og 549 krónur í Bónus.

Benjamín segir að verðhreyfingin sé kvik og verslanir bregðist oft við samdægurs.
„Kappið er enn þá í gangi það eru tíðindin. Í einhverjum tilfellum er verið að keppa krónu fyrir krónu og í einhverjum tilfellum tugi króna í einu og það er alveg alvöru lækkun að eiga sér stað á einhverjum vörum.“
Verðlagseftirlit ASÍ muni fylgjast náið með þróuninni næstu daga og vikur.
„Hvort ástandið haldist, hvort það komi eitthvað nýtt jafnvægi, hvort Prís muni halda sér sem ódýrasta verslunin eða hvort Bónus nái að vinna aftur á.“