Handbolti

„Geri mér al­veg grein fyrir því að þetta sé á ein­hvern hátt um­deilt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta.
Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. VÍSIR / PAWEL

Landsliðsþjálfari Íslands í handbolta verður aðstoðarþjálfari kvennaliðs Fram í Olís-deild kvenna á næsta tímabili. Hann segir að ekki ættu að koma upp hagsmunaárekstrar.

Arnar Pétursson verður aðstoðarþjálfari kvennaliðs Fram á næsta tímabili. Hann er sem stendur aðalþjálfari íslenska kvennalandsliðsins en Arnar verður aðstoðarmaður Rakelar Daggar Bragadóttur sem tók við liðinu af Einari Jónssyni á dögunum.

„Það eru orðin nokkuð mörg ár síðan ég var í þessum félagsliðabolta og ég hlakka bara mikið til,“ segir Arnar og heldur áfram.

„Ég held að þetta eigi alveg eftir að fara vel saman. Öðruvísi væri ég ekki að fara út í þetta. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta sé á einhvern hátt umdeilt en það er svo bara mitt að vinna almennilega með þetta og sýna að þetta sé í lagi og ganga þannig frá þessu að þetta verði allt saman eins og þetta á að vera,“ segir Arnar og bætir við að það verði alls ekki einkennilegt fyrir hann að velja landsliðshóp.

Stórveldi

„Hingað til hef ég valið þá leikmenn sem ég hef trú á að skili okkur eins góðum árangri og hægt er. Það breytist ekkert þó ég sé kominn aðeins nær deildinni. Metnaðurinn er að A-landsliðið sé að taka þau skref fram á við sem við erum að stefna að.“

Hann segir að það sé mikill metnaður fyrir kvennaliði Fram í Úlfársárdal

„Fram er stórveldi í íslenskum kvennahandbolta og ég hlakka til að kynnast starfinu og menningunni í kringum liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×