Guardian greinir frá þessum tíðindum og hefur eftir heimildarmönnum innan ungversku ríkisstjórnarinnar að búist sé við því að Orban láti sjá sig í Kænugarði á morgun. Í ljósi afstöðu Orban gagnvart innrásarstríði Rússa koma þessi tíðindi mörgum á óvart. Orban hefur enn ekki heimsótt nágrannaríkið Úkraínu frá því stríðið hófst.
Heimsóknin gæti tengst því að Ungverjaland tók forsæti innan leiðtogaráðs Evrópusambandsins í dag, og heldur því út árið.
Guardian hefur sömuleiðis eftir heimildarmanni innan úr stjórnsýslu í Úkraínu að von sé á Orban til Kænugarðs á morgun, þriðjudag. „Orban verður hér á morgun, ef ekkert breytist.“
Þá segir að Orban hafi sett þá forsendu fyrir fundinum að málefni ungverskumælandi íbúa Úkraínu í vesturhluta landsins komist í betra horf. Orban hefur verið sakaður um að nýta sér málefni þeirra sem ástæðu fyrir því að tala á mildari nótum um hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu.