Erlent

Gamall handritsbútur reyndist úr guð­spjalli um æsku Krists

Jón Þór Stefánsson skrifar
Á þessari mynd er Jesús sýndur aðeins eldri en í Bernskuguðspjalli Tómasar þar sem hann er fimm til tólf ára gamall.
Á þessari mynd er Jesús sýndur aðeins eldri en í Bernskuguðspjalli Tómasar þar sem hann er fimm til tólf ára gamall. Getty

Fræðimenn við Humboldt-háskólann í Berlín hafa uppgötvað að gamall handritsbútur, sem hefur legið ósnertur á bókasafni í Þýskalandi um áratugaskeið, er úr svokölluðu Bernskuguðspjalli Tómasar. Um er að ræða elstu útgáfu af guðspjallinu sem vitað er um.

Talið er að búturinn sé frá fjórðu eða fimmtu öld eftir Krist, og að sjálft guðspjallið hafi verið skrifað á annarri öld.

Bernskuguðspjall Tómasar fjallar um æsku Jesú Krists, nánar tiltekið frá því að hann var fimm ára til tólf ára. Það er ekki hluti af Biblíunni og flokkast með Apókrýfum ritum.

Birtingarmynd Krists er heldur óhefðbundin í verkinu þar sem hann er sýndur sem prakkari sem er að læra á þann ótrúlega mátt sem hann fékk frá Guði. Til að mynda drepur þessi ungi Jesú tvo aðra drengi, lífgar upp á dauðan fisk, og býr til lifandi fugla úr leir. En jafnframt tekur hann til baka gjörðir sínar, og er talið að endurlífgun á drengjunum felist í því.

Handritið sem nú er til umfjöllunar er papírusbútur sem er ellefu og fimm sentímetrar á lengd og breidd. Á honum er einungis að finna þrettán línur, með tíu letrum í línu, skrifaðar á grísku.

Í tilkynningu frá Humboldt-háskólanum segir að uppgötvun fræðimannanna leiði í ljós að líklega hafi Guðspjall Tómasar í fyrstu verið skrifað á grísku.

Fyrir uppgötvunina var talið að búturinn væri úr persónulegu bréfi eða innkaupalista. Þegar fræðimennirnir hafi tekið eftir því orðið „Jesús“ kæmi fyrir í textanum hafi þeir farið að bera það saman við kristna texta og í ljós komið að um væri að ræða texta úr Bernskuguðspjalli Tómasar.

Fræðimennina grunar nú að um sé að ræða ritunaræfingu úr skóla eða klaustri. Það er vegna þess að rithátturinn þykir klaufalegur með mislangt bil á milli letra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×