Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrradag. Málsatvik voru þau að lögreglumaðurinn hafði afskipti af karlmanni í maí á síðasta ári fyrir utan skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Hann beitti úðavopni ítrekað gegn manninum, þrátt fyrir að hann hefði enga mótspyrnu sýnt við handtöku. Þá sparkaði lögreglumaðurinn í manninn og sló hann fjórum sinnum með kylfu, á meðan maðurinn lá á fjórum fótum. Fyrir vikið var lögreglumaðurinn dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.
Afbrotafræðingur segir mikilvægt að lögreglan hafi rannsakað málið að eigin frumkvæði og vikið lögreglumanninum strax úr starfi.
„Lögreglan hefur lagalega heimild til að beita borgarana valdi, í raun eina starfsstéttin sem hefur það. Í þessari heimild liggur mikil ábyrgð. Vegna þessarar heimildar gerum við meiri kröfur til lögreglunnar en annarra starfsstétta,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Þjálfun og menntun lykillinn
Mál sem þetta geti grafið undan trausti fólks til lögreglu.
„Að almenningur beri traust til lögreglu er ein af forsendum þess að hún geti unnið starf sitt. Af því að fólk þarf að treysta lögreglunni, svo það fari að fyrirmælum hennar.“
Þar sem lögregla hafi tekið málið sjálf til rannsóknar sé það ólíklegra til að hafa áhrif á traust til lögreglu.
Aukin menntun og þjálfun lögreglumanna hafi aukist á síðustu árum, en málum sem þessum verði aldrei útrýmt að fullu.
„En það að bæta þjálfun og að bæta menntun, dregur úr að svona atvik komi upp.“