Kadetten gat orðið meistari með sigri á Kriens í fjórða leik liðanna í dag. Það gekk ekki eftir því heimamenn unnu sex marka sigur, 33-27, og knúðu fram oddaleik. Hann fer fram á sunnudaginn.
Kriens náði undirtökunum seinni hluta fyrri hálfleiks, skoraði fjögur mörk í röð og breytti stöðunni úr 11-11 í 15-11. Fjórum mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 18-14.
Heimamenn héldu því forskoti í seinni hálfleik og Kadetten Schaffhausen tókst aldrei að minnka muninn í minna en tvö mörk. Á endanum munaði sex mörkum á liðunum, 33-27.
Óðinn skoraði fimm mörk úr sex skotum og var næstmarkahæstur í liði Kadetten Schaffhausen.