Ríkisútvarpið greindi frá. Pétur Jökull var eftirlýstur af Interpol fyrr á árinu og kom sjálfviljugur til landsins í lok febrúar. Hann var áður dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar árið 2010 fyrir smygl á 1,6 kílóum af kókaíni frá Alicante á Spáni til landsins. Þá var hann líka dæmdur í fimm mánaða fangelsi árið 2011 fyrir rán.
Í byrjun ágúst 2022 lagði lögregla hald á tæplega hundrað kíló af kókaíni sem falið hafði verið í timbursendingu til Hollands frá Brasilíu og átti þaðan að halda áfram á áfangastað á Íslandi. Þeir fjórir menn sem dæmdir voru vegna málsins hlutu dóma upp á fimm til níu ár. Ljóst var þó fleiri hefðu komið að skipulagningu innflutningsins.
Mennirnir fjórir sem ákærðir voru árið 2022 játuðu allir þátttöku sína en sögðust hafa átt veigalítinn þátt í málinu. Í skýrslutökum lögreglu sögðust þeir allir hafa farið eftir fyrirmælum manns sem kallaði sig ýmist Nonna, Harry eða Trucker á dulkóðuðum samskiptaforritum sem mennirnir notuðu. Pétur Jökull hefur í skýrslutökum neitað sök og hafnað því að hann sé hinn umtalaði Nonni.
Fram kom fyrr í mánuðinum að lögreglan hefði rakið ferðir Péturs til Brasilíu um það leyti sem gámurinn sem flutti kókaínið fór af stað. Hann gaf skýringar á Brasilíudvöl sinni en lögregla taldi þær ótrúverðugar.
Ekki liggur fyrir hvenær ákæran á hendur Pétri Jökli verður þingfest né hvenær aðalmeðferð fer fram.