New Yorker birti í gær ítarlega umfjöllun um mál Lucy Letby, hjúkrunarfræðings, sem var dæmd í lífstíðarfangelsi í fyrra fyrir að bana sjö kornabörnum og fyrirburum og reyna að drepa nokkra til viðbótar á sjúkrahúsinu þar sem hún starfaði á árunum 2015 og 2016.
Verulegum efasemdum um grundvöll máls saksóknara gegn Letby er velt upp í greininni sem ber titilinn „Breskur hjúkrunarfræðingur var fundinn sekur um að drepa sjö börn. Gerði hún það?“. Á meðal þess sem er gagnrýnt er tölfræðileg sönnunargögn sem voru lykilþáttur í málinu gegn Letby og greinargerðir sérfræðings sem komst að þeirri niðurstöðu að börnunum hefði verið ráðinn bani vísvitandi.
Greinin er ekki aðgengileg í Bretlandi eftir að New Yorker lokaði fyrir aðgang að henni á netinu til þess að verða við dómsúrskurði í Bretlandi. Talsmaður tímaritsins staðfesti það við Press Gazette, breskt tímarit sem fjallar um fjölmiðla.
Nær öll umfjöllun um mál Letby er bönnuð á grundvelli dómsúrskurðar. Dómstóllinn sem dæmdi í málinu veitti ennfremur átta sjúkrahússtarfsmönnum sem báru vitni í málinu nafnleynd auk sautján foreldra og barna, að sögn Press Gazette.
Telur ritskoðunina stríða gegn opnu réttarkerfi
David Davis, fyrrverandi ráðherra og núverandi þingmaður Íhaldsflokksins, gagnrýndi ritskoðunina á grein sem setti stórt spurningamerki við grundvöll málsins gegn Letby á breska þinginu í dag. Honum sýndist dómsúrskurðurinn stríða gegn opnu réttarkerfi í Bretlandi. Kallaði hann eftir því að ríkisstjórnin skoðaði málið.
Alex Chalk, dómsmálaráðherra Bretlands, svaraði því til að dómsúrskurði yrði að virða og niðurstöðu kviðdóms í máli Letby einnig. Ef snúa ætti dómnum við þyrfti það að gerast fyrir dómstólum, að því er segir í skoska blaðinu The National.
Ósk Letby um áfrýjun verður tekin fyrir hjá áfrýjunardómstól á næstunni. Það er hennar eini möguleiki að skjóta máli sínu til æðra dómstigs. Réttað verður yfir henni aftur vegna ákæruliða um tilraun til manndráps á fimm börnum sem kviðdómur komst ekki að niðurstöðu um í upphaflegu réttarhöldunum.
Líkt við rökleysu um meistaraskyttu
Samkvæmt lýsingum í New Yorker greininni voru aðstæður á nýburadeildinni sem Letby starfaði á við Sjúkrahús greifynjunnar af Chester slæmar. Þröngt var um deildina, hana skorti viðeigandi tækjabúnað og nægilega þjálfað starfsfólk. Þá var mikið álag á læknum og hjúkrunarfræðingum sem kom niður á umönnun bæði mæðra og barna. Árið 2015, árið sem Letby á að hafa byrjað að myrða börn, hafi verið fyrsta árið í heila öld sem ungbarnadauði varð tíðari á Englandi.
Eftir óvenjumörg dauðsföll á deildinni bárust böndin að Letby þar sem þau áttu það sameiginlegt að hafa gerst þegar hún var á vakt. Sjúkrahúsið færði Letby síðar í skrifstofustarf og lét hana gangast undir endurmat á hæfni.
Í greininni er sagt frá efasemdum sérfræðinga um þá aðferðafræði að nota fylgni á milli vaktaplans Letby og dauðsfallanna sem sönnunargögn í málinu. Konunglega tölfræðifélagið hafi meðal annars sent bæði saksóknurum og verjendum í málinu skýrslu sem þeir gerðu í kjölfar þess að tveir hjúkrunarfræðingar í Hollandi og Ítalíu fengu uppreist æru eftir að hafa verið dæmdir fyrir morð á sjúklingum.
Burkhard Schafer, lagaprófessor við Edinborgarháskóla, sagði New Yorker að skýringarmynd sem lögreglan notaði til að sýna að Letby hefði alltaf verið á vakt þegar grunsamlegir atburðir áttu sér stað hafi vakið honum sérstakar áhyggjur. Skoða hefði þurft lengra tímabil og öll dauðsföll á deildinni, ekki bara þau sem Letby var ákærð fyrir.
Líkti hann aðferðinni við svonefnda meistaraskytturökleysu, algeng mistök við tölfræðigreiningu þar sem rannsakendur einblíni á lítinn hluta stórs gagnasafns sem passar við tilgátu þeirra. Það líkist dæmisögu af meintri meistaraskyttu í Texas sem skýtur af byssu sinni í hlöðuvegg og teiknar síðan skotmark utan um þann stað sem flest skotin hæfðu.