Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alvotech til Kauphallar. Þar segir að stefnt verði að því að viðskiptavinir Quallent geti fengið lyfið án greiðsluþátttöku þeirra. Áður hafði verið greint frá því að samningurinn væri í höfn, en ekki var tilgreint við hvern hann var.
„Við fögnum því að ganga til samstarfs við Alvotech um aukið aðgengi sjúklinga að adalimumab-ryvk. Það er markmið okkar að geta boðið flestum sjúklingum lyfið án greiðsluþátttöku þeirra. Markmið Quallent er að bjóða sjúklingum örugg og hagkvæm lyf í samstarfi við lyfjafyrirtæki eins og Alvotech. Þetta samstarf auðveldar okkur að ná þessu markmiði,“ er haft eftir John Caufield, forstjóra Quallent Pharmaceuticals Health, LLC.
Skref í átt að auknu aðgengi
„Alvotech tryggði sér í febrúar síðastliðnum einkarétt í tólf mánuði eftir að sala hefst, til að bjóða í Bandaríkjunum líftæknilyfjahliðstæðu í háum styrk með útskiptileika við Humira. Um 85 prósent af sölu Humira í Bandaríkjunum er það lyfjaform sem Alvotech hefur fengið markaðsleyfi fyrir. Við höfum þar af leiðandi fundið fyrir mjög sterkum áhuga innkaupaaðila og heilbrigðistryggingafyrirtækja í Bandaríkjunum. Með þessum samningum stígum við enn eitt skrefið í átt að auknu aðgengi sjúklinga að hagkvæmari líftæknilyfjum,“ er haft eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech.