Íslenski boltinn

Danijel Djuric á markið: Annars hefði ég aldrei fagnað svona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danijel Dejan Djuric fær að halda markinu sínu á móti Breiðabliki.
Danijel Dejan Djuric fær að halda markinu sínu á móti Breiðabliki. Vísir/Hulda Margrét

Danijel Dejan Djuric og félagar í Víkingi eru einir á toppi Bestu deildar karla eftir 4-1 sigur á Breiðabliki í þriðju umferðinni um helgina. Djuric var með mark og stoðsendingu í leiknum og heldur hann markinu sínu eftir að leikskýrslan hefur verið staðfest af KSÍ.

Athygli vakti í sjónvarpsútsendingunni frá leiknum að lýsandi leiksins á Stöð 2 Sport, vildi frá fyrstu sekúndu ólmur skrá markið sem sjálfsmark og að það yrði ekki skráð á Danijel Dejan.

Danijel fagnaði samt markinu af miklu krafti og sannfærði greinilega dómara leiksins. Dómari leiksins skráði markið nefnilega strax á Danijel. Nú er búið að staðfesta skýrsluna og markið er enn skráð á Víkinginn eins og sjá má með því að skoða leikskýrslu leiksins á heimasíðu KSÍ.

„Ég hélt fyrst að hann hefði snert boltann fyrst og síðan ég. Þetta er miklu skýrara að þetta er mitt mark. Ég stýri honum inn,“ sagði Danijel eftir að hann fékk að skoða upptökuna hér fyrir neðan.

„Ég myndi ekki fagna svona ef ég hefði ekki vitað að þetta væri mitt mark,“ sagði Danijel. Hann er því hundrað prósent á því að hann eigi markið.

„Það eru bara einhverjir gamlir karla í stúkunni sem sjá þetta ekki,“ sagði Danijel léttur.

Það var vissulega mjög erfitt að sjá það í fyrstu hvort það var Danijel eða Blikinn Damir Muminovic sem sparkaði í boltann. Margar endursýningar og það er enn mikill efi.

Vísir hefur nú hægt á upptöku af besta sjónarhorninu á markinu og má sjá hana hérna fyrir neðan. Með því að skoða þetta mjög hægt er hægt að reyna rýna betur í það hvor þeirra komst í boltann.

Þar teljum við okkur ná að sanna það að dómari leiksins hafi gert rétt með því að skrá markið á Víkinginn.

Nú getur þú lesandi góður metið það hvort að það sé ekki rétt að skrá markið á Danijel Djuric. Enn neðar má síðan sjá öll mörkin úr leiknum á eðlilegum hraða.

Klippa: Mark Danijel Dejan Djuric á móti Blikum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×