Nýtt bankaráð var kjörið á aðalfundi Landsbankans sem fór fram í dag. Bankasýsla ríkisins gerði tillögu um að skipta því gamla út í kjölfar ágreinings um kaup bankans á tryggingafélaginu TM. Bankasýslan taldi kaupin ekki samræmast eigendastefnu ríkisins og að bankaráðið hefði ekki upplýst stofnunina um áformin sem gengju þar að auki gegn vilja þáverandi fjármálaráðherra.
Helga Björk Eiriksdóttir, fráfarandi formaður bankaráðsins, fór yfir söluna á TM og samskiptin við Bankasýsluna í skýrslu sinni til aðalfundarins. Sagði hún miður að góður árangur bankans hefði fallið í skuggann af gagnrýni Bankasýslunnar á kaupin á TM.
Endurtók hún fyrri fullyrðingar bankaráðsins um að það hefði upplýst Bankasýsluna um hug sinn á kaupunum án þess að fá athugasemdir eða óskir um frekari gögn. Mótmælti hún að kaupin samræmdust ekki eigendastefnu ríkisins hvað varðaði að ríkið stefni ekki að því að eiga meirihluta í fjármálafyrirtækkum á almennum markaði til lengri tíma.
Grundvöllur viðskiptanna hafi verið að hámarka virði eignarhluta ríkisins í Landsbankanum í samræmi við eigendastefnuna. Kaupin muni stuðla að aukinni arðsemi bankans og auka arðgreiðslugetu hans til lengri tíma.

Dregst aftur úr ef hann getur ekki keppt á markaði
Eigendastefnan geri Landsbankanum að starfa á markaðsforsendum. Því sagði Helga Björk fyrir hönd fráfarandi bankaráðsins að bankinn hlyti að taka fullan þátt í samkeppni á fjármálamarkaði.
„Ætli Landsbankinn sér ekki að starfa líkt og hvert annað fyrirtæki á samkeppnismarkaði, er hættan sú að smátt og smátt dragist hann aftur úr keppinautum sínum sem ekki eru bundnir af sömu takmörkunum,“ sagði hún.
Telji hluthafar Landsbankans að hlutverk hans eigi að vera annað og að hann eigi ekki að taka fullan þátt í samkeppni á fjármálamarkaði og á markaðsforsendum sé nauðsynlegt að sú stefnumörkun komi skýrt fram með breytingu á tilgangi félagsins í samþykktum eða með annarri ákvörðun á hluthafafundi.
Ekki upplýst formlega um afstöðu ráðherra
Varðandi andstöðu ráherra við kaupin segir í skýrslu bankaráðsins fyrrverandi að sú afstaða hafi komið fram í hlaðvarpsþætti í febrúar. Bankasýslan hafi bóka það sérstaklega í eigin fundargerð en ekki séð ástæðu til þess að vekja athygli bankaráðs Landsbankans á því.
Þáverandi fjármálaráðherra hafi lýst sömu skoðun á fundi með stjórnendum bankans síðar í sama mánuði. Slíkir fundir séu hins vegar ekki vettvangur til þess að hafa áhrif á stjórn og stefnu bankans.
„Vegna armslengdarsjónarmiða sem koma fram í eigendastefnu og samning við Bankasýslu ríkisins eiga samskipti að fara í gegnum Bankasýsluna. Ég vek einnig athygli á að engar athugasemdir bárust frá Bankasýslunni í kjölfar þessar samskipta,“ sagði Helga Björk á aðalfundinum.