Innlent

Með kíló af kókaíni og annað af am­feta­míni í far­angrinum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var dæmdur í 34 mánaða fangelsi.
Maðurinn var dæmdur í 34 mánaða fangelsi. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt þrítugan karlmann, Jose Martin Tobon Medina, í tveggja ára og tíu mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla einu kílói af kókaíni og öðru kílói af metamfetamíni með flugi til landsins.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en hann kom til landsins með flugi frá Spáni til Keflavíkurflugvallar þann 29. janúar síðastliðinn. Í ákæru segir að hann hafi verið með efnin falin í farangrinum, en styrkleiki kókaínsins var 85 prósent og metamfetamínsins 81 prósent.

Medina játaði skýlaust sök í málinu. Í dómi kemur fram að hann hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé, en af framburði hans fyrir dómi og fyrirliggjandi gögnum verði ekki ráðið að hann hafi verið eigandi fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins.

Við ákvörðun refsingar var þó ekki hægt að horfa framhjá því að hann hafi flutt til landsins verulegt magn af sterku kókaíni og verulegt magn af sterku metamfetamíni í kristölluðu formi með afar mikla hættueiginleika – efni sem hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi.

„Þótt ákærði hafi gegnt hlutverki burðardýrs er ljóst að umræddur innflutningur efnanna í sölu-og hagnaðarskyni gat ekki orðið að veruleika án aðkomu hans að brotastarfseminni,“ segir í dómnum.

Mat dómari hæfilega refsingu vera tveggja ára og tíu mánaða fangelsi, en til frádráttar kemur sá tími sem maðurinn hafði setið í gæsluvarðhaldi. Manninum var jafnframt gert að greiða tæpar 1,7 milljónir króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×