Körfubolti

Rand­le undir hnífinn og missir af úr­slita­keppninni með Knicks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julius Randle verður ekki meira með á þessari leiktíð.
Julius Randle verður ekki meira með á þessari leiktíð. Sarah Stier/Getty Images

Julius Randle hefur undanfarnar vikur gert allt sem hann getur til að vera klár fyrir úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Nú er ljóst að hann þarf að fara undir hnífinn og verður því ekki með New York Knicks fyrr en á næstu leiktíð.

Hinn 29 ára gamli Randle meiddist á öxl fyrr á þessu ári en hefur undanfarna tvo mánuði verið í stífri endurhæfingu i von um að vera klár í úrslitakeppnina. Knicks hafa leikið vel á leiktíðinni og var talið að liðið gæti farið langt í úrslitakeppninni. Það þarf þó að gera svo án Randle sem hefur ekki náð að jafna sig og neyðist til að fara í aðgerð á hægri öxl.

Þetta er mikið áfall fyrir Knicks en þrátt fyrir hæga byrjun á tímabilinu þá spilaði Randle eins og engill fram að meiðslunum. Hann skoraði að meðaltali 24 stig í leik, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Liðsfélagar hans þurftu þó ekki á honum að halda í nótt þegar liðið lagði Sacramento Kings með 11 stiga mun, 120-109. Einnig vantaði OG Anunoby í lið Knicks. Hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið en má byrja að æfa bráðlega og ætti að vera klár fyrir úrslitakeppnina.

Herbergisfélagarnir Jalen Brunson og Josh Hart fóru fyrir liðinu í sigrinum. Brunson skoraði 35 stig og gaf 11 stoðsendingar. Hart skoraði 31 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Einnig vantaði OG Anunoby í lið Knicks. Hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið en má byrja að æfa bráðlega og ætti að vera klár fyrir úrslitakeppnina. Knicks eru sem stendur í 5. sæti Austurdeildar með sama sigurhlutfall og Orlando Magic sem er sæti ofar. Ljóst er að miklu máli skiptir að enda í efstu fjórum sætunum upp á heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

Önnur úrslit í nótt

  • Miami Heat 105 – 109 Philadelphia 76ers
  • Dallas Mavericks 109 – 95 Atlanta Hawks
  • Houston Rockets 110 – 133 Golden State Warriors
  • Los Angeles Clippers 102 – 100 Denver Nuggets



Fleiri fréttir

Sjá meira


×