Körfubolti

„Vill frekar eyða tíma með krökkunum mínum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rondo í leik með Lakers gegn Celtics.
Rondo í leik með Lakers gegn Celtics. John McCoy/Getty Images

Rajon Rondo hefur endanlega staðfest að körfuboltaskórnir eru komnir upp í hillu. Hann varð tvisvar NBA-meistari en segist nú frekar vilja eyða tíma með börnunum sínum.

Hinn 38 ára gamli Rondo hefur ekki spilað síðan 2022 en hafði aldrei formlega lagt skóna á hilluna. Hann var gestur í hlaðvarpinu All the Smoke sem fyrrverandi NBA-leikmennirnir Matt Barnes og Stephan Jackson halda úti.

Þar var leikstjórnandinn spurður hvort skórnir væru komnir upp í hillu og játti hann því. Sagðist hann frekar vilja eyða tíma með börnunum sínum heldur en í eilífar æfingar og ferðalög tengdum leikjum. 

Rondo spilaði lengst af ferli sínum með Boston Celtics og varð meistari með liðinu 2008. Eftir að dvöl hans í Boston lauk 2014 spilaði hann með fjölda liða. Þar má nefna Dallas Mavericks, Sacramento Kings, Chicago Bulls, New Orleans Pelicans, Los Angeles Lakers (tvívegis), Atlanta Hawks, Los Angeles Clippers og Cleveland Cavaliers.

Hann er af mörgum talinn einn besti leikstjórnandi þessarar aldar. Varð hann einnig meistari með Lakers árið 2020. Þá var hann fjórum sinnum hluti af stjörnuleik deildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×