Körfubolti

James Hard­en var bara að reyna að hafa gaman

Siggeir Ævarsson skrifar
Gengi LA Clippers hefur verið upp og ofan í vetur
Gengi LA Clippers hefur verið upp og ofan í vetur vísir/Getty

Eitt undarlegasta atvik tímabilsins í NBA-deildinni átti sér stað í leik LA Clippers og Portland Trail Blazers aðfararnótt síðasta miðvikudags þegar James Harden virtist reyna að verja skot liðsfélaga síns.

Atvikið átti sér stað undir lok þriðja leikhluta í stöðunni 81-60, Clippers í vil. Harden fann Kawhi Leonard galopinn í horninu en hljóp svo sjálfur í áttina að honum til þess að trufla skotið. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því með orðum hvað þetta var undarleg sena, sjón er sögu ríkari.

Harden hefur á ferli sínu fengið vænan skammt af gagnrýni fyrir að leggja sig ekki fram í vörn sem gerir þessa senu enn undarlegri. Einhverjir bentu þó á að Leonard væri betri skytta úr skotfærum þar sem varnarmenn væru nálægt heldur en úr opnum og mögulega væri Harden einfaldlega kominn djúpt í tölfræðipælingar.

Skýringin var þó töluvert einfaldari. Harden var bara að reyna að hafa gaman og létta lund liðsfélaga sinna svo þeir gætu hlegið saman. Það má sannarlega færa rök fyrir því að það hafi tekist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×