Skoðun

Tölum meira um það sem vel er gert

Stefania Theodórsdóttir skrifar

Síðastliðinn janúar fór dóttir mín í opna hjartaaðgerð í Svíþjóð. Þegar hún var fimm daga gömul greindist hún með hjartagalla og við tók stöðugt og flott eftirlit hjá barnahjartalækni. Í upphafi var óvíst hvort hún þyrfti að fara í aðgerð. 

Haustið 2023, þegar hún var eins og hálfs árs, fundaði læknirinn hennar hérna heima með sænskum barnahjartalæknum og í framhaldi var tekin ákvörðun um að hún myndi fara til Svíþjóðar í opna hjartaaðgerð, sem blessunarlega gekk einstaklega vel. Eftir að við komum heim frá Svíþjóð hefur verið nokkuð áberandi að fólk hefur áhuga á að vita hvernig spítalinn í Svíþjóð er, hvort hann sé betri og flottari en spítalinn á Íslandi. 

Sannleikurinn er sá að spítalinn í Svíþjóð er jafngamall spítalanum hér heima, þeir nota sömu tæki og glíma við svipuð vandamál, til dæmis skort á starfsfólki. Þar, eins og hér á landi, vinnur þó gríðarlega frábært fólk sem er oftast undir miklu álagi en er stöðugt að gera sitt besta og leita leiða til að gera enn betur. Mig langar að hrósa heilbrigðisstarfsfólki og færa því bestu þakkir. Að mínu mati, er of oft og mikið talað um það sem miður fer en ég tel ákaflega mikilvægt að við tölum meira um það sem vel er gert.

Höfundur er móðir og sérfræðingur hjá Arion banka.




Skoðun

Sjá meira


×