„Skjótt skipast veður í lofti og það er með mikinn harm í brjósti sem þessi póstur er skrifaður. Nú er svo komið að við stöndum frammi fyrir kveðjustund,“ segja verslunareigendur í hópi velunnara verslunarinnar á Facebook.
„Við getum því miður ekki lengur barist fyrir lífinu í búðinni og þó við höfum ætlað að þrauka fram yfir Hvítasunnu þá breyttust aðstæður snögglega og við höfum ákveðið að rífa plásturinn af.“

Brunasala verður í versluninni á föstudag og laugardag á meðan eitthvað verður til.
„Afsláttur verður 25-50 prósent og verður þá verðið um og undir Bónusverði. Við eigum eftir að sakna ykkar sárt Takk fyrir samveruna undanfarin ár,“ segir í kærleikskveðju Bjargar Ragnarsdóttur, Dodda, Sigurjóns og Siggu.
Magnús Hlynur tók hús á Björgu verslunareiganda árið 2020.
Hafa gefið allt í reksturinn
„Þetta er að sjálfsögðu mjög leiðinlegt. Við erum búin að setja allt sem við eigum í þetta. Bæði lífið og sálina og líkamann. En þegar við höfum ekki nema sumartraffíkina, við höfum ekki heimamenn með okkur yfir veturinn, þá bara gengur þetta ekki. Þó svo að við höfum velvild allra heimamanna, það vantar ekkert upp á það,“ segir Björg í samtali við Vísi.
Þá segir Björg að þau fari út úr rekstrinum með vissu um að þau hafi staðið sig vel. „Þó að við hefðum viljað vera aðeins lengur. En það er bara svona.“
Hún segir að næst taki við langþráð sumarfrí, það fyrsta frá árinu 2019 og hún muni finna sér eitthvað annað að gera eftir sumarið. Bróðir hennar sem hefur staðið að rekstrinum með henni hafi þegar ákveðið að vinna áfram í sveitinni, enda sé þar gott að vera.